Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri VR, hefur ákveðið að láta af störfum hjá félaginu að eigin ósk. Hún mun þó vera félaginu innan handar fyrst um sinn.
Í frétt á vef VR segir að ekki liggi fyrir hver muni taka við stöðunni á þessari stundu en Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður félagsins, ásamt öðrum stjórnendum munu sinna starfinu til að byrja með.
„Það hefur fyrst og fremst verið gefandi og lærdómsríkt að starfa með öllu því öfluga og hæfileikaríka starfsfólki sem félagið hefur innan sinna raða sem og að eiga samskipti við fjölda félagsmanna, sem nú telja tæplega 30 þúsund. Ég tel þó að nú sér rétti tíminn til að breyta til og takast á við ný verkefni.
Ég óska félaginu velfarnaðar í framtíðinni“ segir Helga í frétt á vef VR
Í fréttinni þakkar stjórn VR Helgu óeigingjarnt og framúrskarandi starf í þágu félagsmanna allra og óskar Helgu velfarnaðar.