Fjárfestingarsjóðurinn Transition Global I, sem telur Davíð og Ara Helgasyni sem meðstofnendur, hefur sótt 128 milljónir dala, eða hátt í 18 milljarða króna, í áskriftarloforð frá byrjun árs 2023. Sjóðurinn, sem var formlega kynntur sumarið 2023, fjárfestir í grænum lausnum sem miða að því að snúa við áhrifum mannsins á vistkerfi jarðar.
Í gögnum sem skilað var inn til Verðbréfaeftirlits Bandaríkjanna (SEC) kemur fram að sjóðurinn hafi þegar safnað 128,1 milljón dala í fjármögnunarlotu þar sem stefnt er að því að sækja allt að 160 milljónir dala. Það er um 25 milljónum dala meira en í síðustu tilkynningu til Verðbréfaeftirlitsins sem skilað var inn í febrúar síðastliðnum.
Samkvæmt heimasíðu sjóðsins hefur Transition fjárfest í tólf fyrirtækjum. Þar er þó ekki meðtalin fjárfesting sjóðsins í Running Tide, sem var með starfstöð á Akranesi fyrir rannsóknir og framleiðslu á þörungum til kolefnisbindingar. Fyrr í sumar hætti félagið starfsemi á Íslandi.
„Við viljum vera besti meðeigandi fyrirtækja sem eru að leysa loftlagsvanda eða vinna að sjálfbærni með tækni að leiðarljósi. Við viljum halda áfram að byggja teymi upp og hjálpa þeim. Transition verður vonandi besti meðeigandinn hjá svona fyrirtækjum í Bandaríkjunum og Evrópu,“ sagði Ari í viðtali við Viðskiptablaðið fyrir um ári síðan.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild hér.