Hofgarðar, fjárfestingarfélag Helga Magnússonar, aðaleiganda Fréttablaðsins, stofnaði félagið Fjölmiðlatorg ehf. fyrir rúmum mánuði síðan. Í auglýsingu í Lögbirtingablaðinu segir að tilgangur þess sé fjölmiðlun og önnur starfsemi. Annað félag í eigu Helga, Torg ehf., hefur sama tilgang og rekur Fréttablaðið, DV og Hringbraut.

Helgi vildi ekki tjá sig um hið nýstofnaða Fjölmiðlatorg í samtali við Viðskiptablaðið.

„Ég hef ekkert um það að segja við ykkur. Ef ég hefði eitthvað um það að segja þá myndi ég alveg örugglega segja frá því í mínum eigin fjölmiðlum frekar,“ sagði Helgi þegar blaðamaður náði á hann.

Helgi er skráður stjórnarformaður Fjölmiðlatorgs og Jón Þórisson, forstjóri Torgs, er framkvæmdastjóri.

Skráð heimilisfang Fjölmiðlatorgs er að Kalkofnsvegi 2 líkt og hjá Torgi.