Síðan 3G net Símans var opnað í haust hefur fjöldi þeirra sem kjósa að nýta sér þráðlausa 3G netþjónustu í farsíma og fartölvu farið vaxandi. Síminn hóf fyrstur fjarskiptafyrirtækja á Íslandi að bjóða upp á aðgengi að 3G farsímaneti og var ljóst að reynslan fyrstu mánuðina myndi leiða í ljós hvernig þjónustuframboð og áskriftaleiðir myndu þróast í takt við þörf viðskiptavina.
Í tilkynningu frá Símanum segir að í ljósi þeirrar reynslu hafi verið ákveðið að stórauka innifalið gagnamagn í öllum áskriftaleiðum til hagsbóta fyrir viðskiptavini sína. Breytingarnar felast í því að mánaðaverð áskriftaleiða helst óbreytt en innifalið gagnamagn eykst til muna. Sem dæmi þá hækkar innifalið gagnamagn í áskriftaleiðinni Netið í símann úr 6MB í 40MB, úr 30MB í 150MB og 70MB í 150MB eftir því hversu stórar netáskriftarleiðirnar eru. Einnig lækkar verð á umfram gagnamagni um allt að 40%. Allar nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu Símans, siminn.is.
Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans segir í tilkynningunni að enn á ný hafi það komið í ljós að íslendingar séu fljótir að tileinka sér nýja tækni. “Við vorum full bjartsýni þegar við fórum í loftið með 3G þjónustuna í haust en ég verð að segja að viðtökurnar hafa farið fram úr okkar björtustu vonum. Reynslan sýnir okkur að 3G þjónustan er þörf viðbót við samskiptamáta okkar þar sem við nýtum þráðlaus samskipti við vinnu og leik hvar og hvenær sem er”.
Breytingarnar taka gildi miðvikudaginn 12. desember.