Markaðsráðstefnan Reykjavik Internet Marketing Conference verður haldin í dag á Reykjavík Natura Berjaya Hotel en hátíðin var fyrst haldin árið 2004 og fagnar því 20 ára afmæli á þessu ári.

Markmið ráðstefnunnar er að auka þekkingu og kynna allt það nýjasta úr heimi stafrænnar markaðssetningar. Í ár verður meðal annars lögð áhersla á hvernig gervigreind hefur breytt því starfsumhverfi sem markaðsfólk býr yfir.

Danny Sullivan, almannatengill hjá Google leit, verður meðal annars viðstaddur ráðstefnuna en hlutverk hans er að hjálpa notendum Google leitar að skilja betur hvernig Google leit virkar. Þá sér hann einnig um að tryggja að teymið hjá Google heyri og bregðist við til að bæta upplifun þeirra sem nota Google.

Hann segir í samtali við Viðskiptablaðið að hann sé oft spurður af einstaklingum og fyrirtækjum hvernig þau geti staðið sig betur á Google. Á ráðstefnunni mun Danny meðal annars koma inn á meginreglur Google og hvernig fyrirtækið prufukeyrir allar sínar uppfærslur.

„Þú ert til dæmis með snjallsíma sem uppfærir sig reglulega. Sumar uppfærslur eru smávægilegar og þú tekur varla eftir þeim og aðrar eru mun stærri. Google virkar á sama hátt og það má í raun segja að Google uppfæri leitarvél sína um fimm þúsund sinnum á ári.“

Eitt af því sem Google vinnur að núna er að nota gervigreind til að útskýra betur upplýsingarnar sem eru nú þegar fáanlegar á leitarvélinni. Google hefur þá verið að prufukeyra forrit sem kallast AI Overveiw í nokkrum löndum.

Danny notar ferðaþjónustu sem dæmi en hann hefur komið nokkrum sinnum til Íslands og í skoðunarferðum sínum um landið hefur hann þurft að leita að upplýsingum á Google, eins og hvar sé hægt að leigja bíl og fleira.

„Vanalega hefur maður fengið leitarniðurstöður sínar, þessa tíu bláu hlekki sem hægt er að klikka á og svo er hægt að fara inn á þær síðar og læra meira. Með AI Overview vonumst við hins vegar til að geta gefið fólki betri yfirsýn yfir þær leitarniðurstöður.“

Hann ber ferlið saman við bókasafn og segir að í stað þess að spyrja bókasafnsvörð um ákveðið málefni og fá meðmæli um tíu bækur sem fjalla um málefnið, þá gefur starfsmaðurinn yfirsýn yfir þær tíu bækur sem er síðan hægt að skoða nánar.“

„Þér ferð þá strax frá því að líða eins og þú sért týndur yfir í það að skilja betur hvað er að gerast. Þú getur samt sem áður heimsótt vefsíðurnar en með þessu mun þér líða betur með það sem þú ert að gera og hvernig þú getur haldið áfram,“ segir Danny.