Íslenska hátæknifyrirtækið SnerpaPower fékk á dögunum PILOT-E styrk upp á 26 milljónir norskra króna, eða sem nemur tæplega 340 milljónum íslenskra króna, í samstarfi við fimm netfyrirtæki, tvö önnur tæknifyrirtæki ásamt rannsóknarstofnunum í Noregi.

Verkefnið heitir MaksGrid og markmið þess er að auka afkastagetu og sveigjanleika raforkukerfisins í Noregi. Þetta er fjórða verkefni sinnar tegundar í Noregi sem hlýtur PILOT-E styrk að þessu sinni en markmið Pilot-E er “nægt afl - á réttum stað - á réttum tíma”.

MaksGrid er þriggja ára verkefni sem mun þróa og innleiða nýjar lausnir fyrir raforkukerfið sem krefjast ekki nýrra háspennumannvirkja.

„Skortur á flutningsgetu í raforkukerfi Noregs er vaxandi vandamál og raunveruleg hindrun sem stendur í vegi fyrir grænni umbreytingu norsks samfélags. Að byggja ný háspennumannvirki tekur lengri tíma og orkuskiptin geta ekki beðið, né nýir notendur og grænn iðnaður sem óskar eftir tengingu. Takmarkanir í flutnings- og dreifikerfum geta leitt til aukinnar losunar gróðurhúsalofttegunda og óáskilegra áhrifa á náttúru, umhverfi og loftslag,“ segir í fréttatilkynningu.

Markmið MaksGrid er að þróa stafrænar lausnir sem bæta stýringu raforkukerfisins, rauntímagreiningar og eftirlit með áhættum, bæta auðlindanýtingu, samræmingu milli aðila á markaði, áætlanagerð og samspil milli stórnotenda rafmagns og nýrrar raforkuframleiðslu.

„Hlutverk SnerpaPower í MaksGrid er að þróa áfram þann hugbúnað sem nú er í rekstri hér á Íslandi, fyrir norskan markað og aðstæður, skapa aukið virði fyrir græn iðnfyrirtæki í Noregi og kolefnishlutlaust samfélag. Við munum hefja samstarf við nokkra stórnotendur rafmagns í Noregi og vinna náið með þeim fyrirtækjum og stofnunum sem eru með okkur í MaksGrid verkefninu. Við höfum undanfarna mánuði undirbúið innkomu okkar á norska og skandínavíska markaðinn og verkefnið er m.a. árangur þeirrar vinn,” segir Íris Baldursdóttir framkvæmdastjóri SnerpaPower.

Að verkefninu koma auk SnerpaPower; Statnett (flutningsfyrirtæki Noregs) ásamt dreifiveitunum Tensio, Lede, Glitre Nett og Linja, tæknifyrirtækin Infinigrid og Heimdall Power, rannsóknarstofnanirnar SINTEF og The Norwegian Smart Grid Centre. Tæknifyrirtækið DNV mun stýra verkefninu.

„Undirbúningur verkefnisins hefur átt sér langan aðdraganda og mjög vandað til verka. Það var mjög ánægjulegt að fá þau skilaboð að MaksGrid verkefnið hafi verið samþykkt sem Pilot-E verkefni. Á bakvið verkefnið er gríðarlegur metnaður margra fyrirtækja, sem öll gera sér grein fyrir því að áskoranir í raforkukerfinu í dag eru ekki leyst í einrúmi, heldur í samstarfi og með nýjum tæknilausnum,” segir Íris.