Hlutabréfaverð Amazon hefur fallið um 12% í viðskiptum fyrir opnun markaða í dag en netrisinn birti uppgjör í gærkvöldi. Áætlanir félagsins um rekstrarniðurstöðu á fjórða ársfjórðungi eru undir væntingum greiningaraðila. Financial Times greinir frá.

Vefverslunar- og skýjaþjónusturisinn áætlar að tekjur á yfirstandandi fjórðungi, sem inniheldur jólavertíðina, verði á bilinu 140-148 milljarða dala. Það er allt að 15 milljörðum dala undir spám greiningaraðila sem gerðu ráð fyrir 155 milljarða rekstrartekjum á fjórða ársfjórðungi.

Þá áætlar Amazon að rekstrarhagnaður á fjórða ársfjórðungi verði á bilinu 0-4 milljarðar dala samanborið við spár greiningaraðila um 5 milljarða dala rekstrarhagnað.

Brian Olsavsky, fjármálastjóri Amazon, sagði að vaxandi verðbólga og orkuverð hafi leitt til þess að neytendur endurmeta nú kaupmátt sinn. „Þetta eru fordæmalausar aðstæður fyrir heimilisbókhald margra neytenda.“

Tekjur Amazon á þriðja ársfjórðungi námu 127 milljörðum dala, sem er 15% aukning á milli ára en var engu að síður undir væntingum. Hagnaður netrisans féll úr 3,2 milljörðum í 2,9 milljarða dala á milli ára.

Hlutabréf Amazon hafa nú lækkað um meira en 40% frá áramótum. Auðæfi Jeff Bezos, stofnanda Amazon, nema 134,4 milljörðum dala samkvæmt rauntímalista Forbes. Gera má ráð fyrir að staða Bezos á listanum muni falla við opnun markaða í dag.