Argentínsk fyrir­tæki sem eru skráð í Banda­ríkjunum eru að njóta góðs af sigri Javi­er Milei í for­seta­kosningunum í gær. Mil­ei, sem lýsir sjálfum sér sem stjórn­leysi­s­kapítal­ista (e. anarcho-capital­ist), hefur lofað miklum við­snúningi í efna­hags­stefnu landsins.

Efna­hags­ó­stjórn hefur ríkt í Argentínu, þriðja stærsta hag­kerfi Römönsku-Ameríku, en um 40% lands­manna býr við fá­tækt og hefur milli­stétt landsins nánast þurrkast út.

Skuldir ríkisins hafa aukist gríðarlega, gjald­miðill landsins veikst tölu­vert á sama tíma og Argentína glímir við stjórnlausa óða­verð­bólga.

Allt eru þetta sagt ástæður þess að kjós­endur á­kváðu að breyta um stefnu og kjósa hægri sinnaða hag­fræðinginn Mil­ei.

Það sem þjáð þjóð þarf á að halda

Hluta­bréf argentínska orku­fyrir­tækisins YPF, sem skráð er í Banda­ríkjunum, hækkuðu um 18% í fram­virkum samningum fyrir lokuðum markaði.

Hluta­bréf fjar­skipta­fyrir­tækisins Telecom Argentina hafa hækkað um 9% og hluta­bréf í fjár­mál­ráð­gjafar­fyrir­tækinu Gru­po Financier­or Gala­cia hafa hækkað um 11%, sam­kvæmt The Wall Street Journal.

Geronimo Mansutti, for­stöðu­maður greininga hjá fjár­festinga­fyrir­tækinu EMFI Group í Lundúnum, segir í sam­tali við WSJ að kjör Milei muni hafa já­kvæð á­hrif á efna­hag landsins jafn­vel þótt hann nái ekki öllum helstu kosninga­lof­orðum sínum í gegn.

„Stefna hans í ríkis­fjár­málum og peninga­málum er ná­kvæm­lega það sem þjáð þjóð þarf á að halda,“ segir Mansutti.

Milei hefur lofað að velta ráðandi stétt stjórn­mála­manna, lagt til að Argentína taki upp Banda­ríkja­dal sem gjald­miðil á­samt því að vilja forgangaraða við­skiptum við Banda­ríkin fremur en við Kína og draga veru­lega úr um­svifum ríkisins í efna­hagi landsins.