Hlutabréf bankanna í Kauphöllinni hafa hækkað talsvert í fyrstu viðskiptum í dag, sem má einkum rekja til beiðni stjórnar Kviku banka um samrunaviðræður við stjórn Íslandsbanka.
Gengi Íslandsbanka hefur hækkað um 5% og stendur í 122,8 krónum. Til samanburðar stóð gengi Íslandsbanka í 117 krónum við lokun markaða í gær. Hlutabréfaverð Kviku banka hefur hækkað um 7,5% og stendur í 20,0 krónum á hlut þegar fréttin er skrifuð.
Hlutabréfaverð Arion banka hefur sömuleiðis hækkað um 4,3% í morgun.
Stjórn Kviku banka óskaði í gær eftir því við stjórn Íslandsbanka að hefja samrunaviðræður milli bankanna tveggja. Stjórn Íslandsbanka segist ætla að taka erindið til umræðu í næstu viku og ákveða þá næstu skref bankans.