Hlutabréfaverð Eimskips hefur hækkað um 7% í fyrstu viðskipum í morgun en gámaflutningafélagið birti árshlutauppgjör eftir lokun markaða í gær.
Afkoma Eimskips á þriðja ársfjórðungi var sú sterkasta á árinu. Tekjur félagsins jukust um 18,6 milljónir evra frá fyrra ári og námu 220,6 milljónum evra á fjórðungnum, sem samsvarar um 33 milljörðum króna á gengi dagsins.
Hagnaður eftir skatta nam 14,3 milljónum evra samanborið við 16,6 milljónir evra fyrir sama tímabil árið 2023. Sé miðað við gengi dagsins hagnaðist Eimskip um 2,1 milljarð króna á fjórðungnum.
Gengi Eimskips stendur í 400 krónum þegar þetta er skrifað og hefur ekki verið hærra síðan í febrúar.
Töluverðar áskoranir hafa verið í gámaflutningum á árinu og féll gengi Eimskips niður í 312 krónur um miðjan maí. Gengi félagsins hefur hækkað um 28% síðan þá og um 16% síðastliðinn mánuð.