Hluta­bréf Iceland Sea­food International hafa hækkað um rúm 5% í næstum 200 milljón króna við­skiptum í Kaup­höllinni í morgun.

Gengi fé­lagsins hefur nú hækkað um 11% síðast­liðinn mánuð en hluta­bréf fé­lagsins hafa verið á stöðugri upp­leið frá því Bjarni Ár­manns­son for­stjóri til­kynnti um starfs­lok sín.

Sam­hliða starfs­lokum Bjarna seldi Sjávar­sýn, fjár­festingar­fé­lag hans, allan 10,8% eignar­hlut sinn í fé­laginu til út­gerðar­fé­lagsins Brims á 1.644 milljónir króna. Gengið í við­skiptunum var 5,3 krónur á hlut sem var í sam­ræmi við gengi fé­lagsins síðast­liðnar vikur á markaði.

Ægir Páll Frið­berts­son sem hefur starfað sem fram­kvæmda­stjóri Brims undan­farin fimm ár mun taka við starfi for­stjóra ISI þann 1. nóvember.

Gengið stendur í 6,1 krónu þegar þetta er skrifað en til saman­burðar fór það hæst í 17,8 krónur í maí 2021.

Enn langt í land með að ná vopnum sínum

Í til­kynningu um starfs­lok Bjarna í lok síðasta mánaðar kom fram að reksturinn hefði gengið erfið­lega að undan­förnu og verð­bólga hafi gert fé­laginu erfitt fyrir en á ýmsum sviðum hafi reynst erfitt að velta kostnaðar­hækkunum út í verð­lag.

Jafn­framt var mikill tap­rekstur hjá breska dóttur­fé­laginu Iceland Sea­food UK. Eftir strembið sölu­ferli til­kynnti ISI í lok ágúst síðast­liðnum um sölu á breska fé­laginu til danska sjávar­af­urða­fyrir­tækisins Esper­sen A/S.

Í upp­gjöri ISI fyrir annan árs­fjórðung kom fram að nei­kvæð á­hrif vegna breska fé­lagsins á árinu 2023 væru á­ætluð um 15 milljónir punda eða um 2,5 milljarðar króna.

Iceland Sea­food tapaði um 2,2 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum þessa árs og um 1,5 milljörðum króna á árinu 2022.