Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,2% í 1,9 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Mesta veltan, eða um 644 milljónir, var með hlutabréf Icelandair sem lækkuðu um 3,6%.
Hlutabréfaverð Icelandair stóð í 1,34 krónum á hlut við lokun Kauphallarinnar og hefur nú hækkun á gengi hlutabréfa flugfélagsins í byrjun árs nær alfarið gengið til baka.
Lækkunin kann m.a. að tengjast eldgosinu við Grindavík en bæði Icelandair og Play gáfu það út í lok síðasta árs að fjölmiðla umfjöllun í kringum jarðhræringar á Reykjanesskaganum hefðu haft neikvæð áhrif á bókunarstöðu þeirra.
Þá hafa erið töluverðar sveiflur á eldsneytismarkaði síðustu daga. Verð á tunnu af Brent-hráolíu fór yfir 80 dali á föstudag eftir loftárásir Bandaríkjamanna og Breta á Hútí-uppreisnarmennina í Jemen, sem ýmsir óttast að hafi í för með sér aukna spennu í átökunum í Mið-Austurlöndum. Verð á Brent-tunnu hefur þó komið aftur undir 78 dali.
Einnig má minnast á að hlutabréf fjögurra stærstu flugfélaga Bandaríkjanna lækkuðu um 4-11% á föstudaginn eftir að Delta Air Lines færði niður afkomuspá sína fyrir árið 2024.
Ölgerðin hækkar áfram
Sextán af 26 félögum aðalmarkaðarins voru rauð í viðskiptum dagsins. Auk Icelandair þá lækkaði gengi hlutabréfa VÍS og Skeljar um meira en eitt prósent í dag en þó í lítilli veltu.
Sjö félög aðalmarkaðarins hækkuðu í viðskiptum dagsins. Þar af hækkaði Ölgerðin mest eða um 2,5% í nærri 70 milljóna veltu. Gengi Ölgerðarinnar, sem birti uppgjör eftir lokun markaða á fimmtudaginn, stendur nú í 16,65 krónum á hlut og hefur aldrei verið hærra. Gengið hefur hækkað um 53,5% á einu ári.