Hlutabréfaverð Icelandair hefur lækkað um meira en 9% í fyrstu viðskiptum í dag og stendur í 0,91 krónu á hlut þegar fréttin er skrifuð. Til samanburðar var dagslokagengi Icelandair síðast lægra í nóvember 2020. Hlutabréf Icelandair hafa nú fallið um 30% það sem af er ári.

Icelandair tilkynnti í gær að félagið hefði tekið afkomuspá sína fyrir árið úr gildi. Flugfélagið bar fyrir sig að óvissa ríki um hvernig aðstæður á mörkuðum muni þróast út árið, ekki síst vegna endurtekinna eldgosa á Reykjanesi.

Samhliða tilkynnti félagið að það hefði gengið frá starfslokum við 82 starfsmenn innan félagsins en um var að ræða starfsmenn þvert á svið bæði innanlands og í Evrópu.

Engin viðskipti hafa átt sér stað með bréf Play í morgun enn sem komið er en hlutabréf flugfélagsins lækkuðu um 17,5% í gær.