Hlutabréfaverð Play hefur lækkað um 17,9% í yfir 20 milljóna króna viðskiptum það sem af er degi. Flugfélagið tilkynnti eftir lokun markaða í gær að það hefði fellt afkomuspá sína fyrir árið 2024 úr gildi og að það geri nú ráð fyrir að EBIT-afkoma félagins verði neikvæð í ár.

Hlutabréfaverð Play hefur lækkað um 17,9% í yfir 20 milljóna króna viðskiptum það sem af er degi. Flugfélagið tilkynnti eftir lokun markaða í gær að það hefði fellt afkomuspá sína fyrir árið 2024 úr gildi og að það geri nú ráð fyrir að EBIT-afkoma félagins verði neikvæð í ár.

Gengi hlutabréfa Play stendur í 1,97 krónum á hlut þegar fréttin er skrifuð. Til samanburðar stóð gengið í 2,40 krónum við lokun Kauphallarinnar í gær sem er lægsta dagslokagengi félagsins frá skráningu á First North-markaðinn í júlí 2021.

Play lauk í vor 4,6 milljarða króna hlutafjáraukningu sem fór fram á genginu 4,5 krónur á hlut. Núverandi markaðsverð er um 56% lægra en útgáfuverðið í fjármögnunarlotunni.

Play mun birta uppgjör fyrir annan ársfjórðung eftir lokun Kauphallarinnar á fimmtudaginn. Félagið tilkynnti í gær að vinna við uppgjörið og uppfærða afkomuáætlun gefi vísbendingar um að rekstrarafkoma á árinu 2024 verði ekki í kringum núll eins og áður hafði verið gefið út, heldur neikvæð.

„Erfitt rekstrarumhverfi flugfélaga um þessar mundir gefur Play tilefni til að veita ekki frekari leiðsögn um rekstrarþætti félagsins fram á við,“ segir í tilkynningu Play til Kauphallarinnar. Félagið segir þó áfram stefna í að EBIT-afkoman verði mun betri í ár en í fyrra.