Hlutabréf flugfélagsins SAS hafa hækkað um meira en 7% í morgun eftir að félagið tilkynnti í gær um 700 milljóna dala fjármögnun eða sem nemur 96 milljörðum íslenskra króna.
Bandaríska fjárfestingarfyrirtækið Apollo Global Management stendur að baki fjármögnunarinnar verður nýtt í fjárhagslega endurskipulagningu vegna greiðslustöðvunar flugfélagsins í Bandaríkjunum.
Sjá einnig: SAS sækir um greiðslustöðvun í Bandaríkjunum
SAS sótti um greiðslustöðvun í Bandaríkjunum í júlí, degi eftir að flestir flugmenn félagsins hófu tveggja vikna verkfall.
SAS, sem var í taprekstri fyrir Covid-faraldurinn, hefur gefið það út að féagið þurfi að draga úr kostnaði og sækja sér aukið fjármagn til að lifa af. Stærstu hluthafar SAS eru ríkissjóðir Danmerkur og Svíþjóðar. Ríkisstjórn Svíþjóðar hyggst ekki setja aukið fjármagn í rekstur flugfélagsins.
Danska ríkisstjórnin ítrekaði afstöðu sína í morgun að hún er tilbúin að styðja við björgunaraðgerðir sem SAS hóf í febrúar að því gefnu að flugfélagið fái inn stóran fjárfesti að borðinu.