Hlutabréfaverð Sýnar hefur hækkað um nærri 7% í dag og gengi Icelandair um 5% í viðskiptum dagsins. Þá hefur gengi Play fallið um 6%.
Gengi Icelandair hefur hækkað um 5,1% í yfir hundrað milljóna króna veltu og stendur í 1,24 krónum á hlut þegar fréttin er skrifuð. Til samanburðar var dagslokagengi flugfélagsins síðast hærra í byrjun mars síðastliðins.
Hlutabréfaverð Icelandair hefur alls hækkað um 22,8% frá því að það stóð í 1,01 krónu þann 23. júní sl.
Flugfélagið birti flutningstölur eftir lokun Kauphallarinnar á þriðjudaginn þar sem m.a. fram kemur að farþegum til Íslands í júní fjölgaði um 20% frá sama tímabili í fyrra.
Hlutabréfabréfaverð Sýnar er áfram á siglingu og hefur nú hækkað um 27% á síðastliðnum mánuði. Gengi fjölmiðla- og fjarskiptafélagsins hefur hækkað um 6,9% í dag og stendur í 31 krónu á hlut. Það hefur ekki verið hærra síðan í byrjun janúar.
Gengi hlutabréfa Play hefur fallið um 7,4% í lítilli veltu í dag og hefur nú alls fallið um 17% frá því að flugfélagið tilkynnti á þriðjudaginn um að fjárfestahópur sem hafði í síðasta mánuði boðað yfirtökutilboð á tilboðsverðinu 1,0 krónu á hlut, hefði fallið frá áformunum. Gengi Play stendur nú í 0,76 krónum á hlut.
Play tilkynnti samhliða um að það hefði tryggt sér bindandi skilyrt áskriftarloforð um kaup fjárfesta á breytanlegu skuldabréfi að samanlögðu andvirði 2.425 milljónir króna.