Alþjóð­legir hluta­bréfa­markaðir tóku dýfu í morgun sam­hliða því að Bandaríkja­dalur styrktist er fjár­festar reyna að átta sig á áhrifum tollanna sem Donald Trump, for­seti Bandaríkjanna, kynnti um helgina.

Evrópska hluta­bréfa­vísi­talan Stoxx Europe 600 og breska FTSE 100 vísi­talan lækkuðu um 1,3% í fyrstu við­skiptum. Fram­virkir samningar tengdir S&P 500 vísitölunni benda til um 1,7% lækkunar við opnun markaða á meðan Nas­daq-vísi­talan mun opna um 2,1% lægri á eftir.

Á gjald­eyris­mörkuðum var mikil ólga þar sem kana­da­dollarinn féll í sitt lægsta gildi síðan 2003 og mexíkóski pesóinn lækkaði um nær 3%.

Trump lagði 25% tolla á inn­flutning frá Kanada og Mexíkó, þó að orku­afurðir frá Kanada myndu aðeins bera um 10% tolla.

Bandaríkja­dalurinn styrktist um 1,2% gagn­vart helstu við­skipta­myntum. Þá lagði Trump einnig 10% toll á inn­flutning frá Kína og full­yrti að tollar á Evrópu­sam­bandið myndu „örugg­lega eiga sér stað“ en Financial Times greinir frá.

Hluta­bréf bíla­fram­leiðenda tóku skarpa dýfu

Bíla­fram­leiðendur leiða lækkanir á evrópskum hluta­bréfa­mörkuðum. Hluta­bréf Volkswa­gen féllu um allt að 6,8% við opnun markaða, BMW lækkaði um 6,5% og Daim­ler Truck um 6%.

Mercedes-Benz tók einnig á sig högg og lækkaði gengi bíla­fram­leiðandans um 5,3%. Í Frakk­landi féllu hluta­bréf Renault um 4% og Stellantis um 7%. Franski bíla­vara­hluta­fram­leiðandinn Valeo lækkaði um 9%.

Olíu­verð hækkar

Olíu­verð hækkaði á mánu­dag þar sem víðtækir tollar Trump vöktu áhyggjur af truflunum á fram­boði frá tveimur stærstu olíu­birgjum Bandaríkjanna.

Brent hráolían, alþjóð­lega viðmiðið, hækkaði um 1,4% í 76,75 dali tunnan, á meðan WTI-hráolían í Bandaríkjunum hækkaði um 2,5% í 74,34 dali tunnan.

Sam­kvæmt Rystad Ener­gy munu tollarnir lík­lega leiða til of­fram­boðs á hráolíu og olíu­vörum í Kanada og Mexíkó en skorts í Bandaríkjunum, sem sendir „merki til markaðarins“ um hækkandi verð.

Bandaríkin flytja inn mest af sinni olíu frá Kanada, auk um 500.000 tunna á dag frá Mexíkó. Trump lagði 10% tolla á kana­dískar orku­afurðir, sem er lægra en 25% tollinn sem beitt er á aðrar vörur.

Miklar lækkanir á hluta­bréfa­mörkuðum í Evrópu og Asíu

Markaðir í Asíu lækkuðu einnig veru­lega í nótt eftir ákvörðun Trumps að setja tolla á við­skiptalönd Bandaríkjanna.

Japanska Nikkei 225 vísi­talan féll um 2,7%, sem var mesta daglækkun síðan í byrjun nóvember.

Suður­kóreska Kospi-vísi­talan lækkaði um 2,5%, en Taiex-vísi­talan í Taí­, sem er mjög háð alþjóða­við­skiptum, féll um 3,5%. Markaðurinn í Taí­ hefur verið lokaður frá 22. janúar vegna nýársins og tók því skarpa dýfu við opnun.

Fjár­festar óttast neikvæð áhrif á bandarískt efna­hags­líf

„Markaðir munu taka þessum skyndi­tollum illa,“ sögðu sér­fræðingar TD Secu­rities á sunnu­dagskvöld, „og áhættu­fjár­festingar lenda í skotlínu.“

Þó að helstu vísitölur séu enn nálægt sögu­legum hæðum, gaf hrunið á sunnu­dag for­smekk af því hvernig Wall Street bregst við þegar hótanir um við­skipta­stríð verða að veru­leika.