Alþjóðlegir hlutabréfamarkaðir tóku dýfu í morgun samhliða því að Bandaríkjadalur styrktist er fjárfestar reyna að átta sig á áhrifum tollanna sem Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, kynnti um helgina.
Evrópska hlutabréfavísitalan Stoxx Europe 600 og breska FTSE 100 vísitalan lækkuðu um 1,3% í fyrstu viðskiptum. Framvirkir samningar tengdir S&P 500 vísitölunni benda til um 1,7% lækkunar við opnun markaða á meðan Nasdaq-vísitalan mun opna um 2,1% lægri á eftir.
Á gjaldeyrismörkuðum var mikil ólga þar sem kanadadollarinn féll í sitt lægsta gildi síðan 2003 og mexíkóski pesóinn lækkaði um nær 3%.
Trump lagði 25% tolla á innflutning frá Kanada og Mexíkó, þó að orkuafurðir frá Kanada myndu aðeins bera um 10% tolla.
Bandaríkjadalurinn styrktist um 1,2% gagnvart helstu viðskiptamyntum. Þá lagði Trump einnig 10% toll á innflutning frá Kína og fullyrti að tollar á Evrópusambandið myndu „örugglega eiga sér stað“ en Financial Times greinir frá.
Hlutabréf bílaframleiðenda tóku skarpa dýfu
Bílaframleiðendur leiða lækkanir á evrópskum hlutabréfamörkuðum. Hlutabréf Volkswagen féllu um allt að 6,8% við opnun markaða, BMW lækkaði um 6,5% og Daimler Truck um 6%.
Mercedes-Benz tók einnig á sig högg og lækkaði gengi bílaframleiðandans um 5,3%. Í Frakklandi féllu hlutabréf Renault um 4% og Stellantis um 7%. Franski bílavarahlutaframleiðandinn Valeo lækkaði um 9%.
Olíuverð hækkar
Olíuverð hækkaði á mánudag þar sem víðtækir tollar Trump vöktu áhyggjur af truflunum á framboði frá tveimur stærstu olíubirgjum Bandaríkjanna.
Brent hráolían, alþjóðlega viðmiðið, hækkaði um 1,4% í 76,75 dali tunnan, á meðan WTI-hráolían í Bandaríkjunum hækkaði um 2,5% í 74,34 dali tunnan.
Samkvæmt Rystad Energy munu tollarnir líklega leiða til offramboðs á hráolíu og olíuvörum í Kanada og Mexíkó en skorts í Bandaríkjunum, sem sendir „merki til markaðarins“ um hækkandi verð.
Bandaríkin flytja inn mest af sinni olíu frá Kanada, auk um 500.000 tunna á dag frá Mexíkó. Trump lagði 10% tolla á kanadískar orkuafurðir, sem er lægra en 25% tollinn sem beitt er á aðrar vörur.
Miklar lækkanir á hlutabréfamörkuðum í Evrópu og Asíu
Markaðir í Asíu lækkuðu einnig verulega í nótt eftir ákvörðun Trumps að setja tolla á viðskiptalönd Bandaríkjanna.
Japanska Nikkei 225 vísitalan féll um 2,7%, sem var mesta daglækkun síðan í byrjun nóvember.
Suðurkóreska Kospi-vísitalan lækkaði um 2,5%, en Taiex-vísitalan í Taí, sem er mjög háð alþjóðaviðskiptum, féll um 3,5%. Markaðurinn í Taí hefur verið lokaður frá 22. janúar vegna nýársins og tók því skarpa dýfu við opnun.
Fjárfestar óttast neikvæð áhrif á bandarískt efnahagslíf
„Markaðir munu taka þessum skynditollum illa,“ sögðu sérfræðingar TD Securities á sunnudagskvöld, „og áhættufjárfestingar lenda í skotlínu.“
Þó að helstu vísitölur séu enn nálægt sögulegum hæðum, gaf hrunið á sunnudag forsmekk af því hvernig Wall Street bregst við þegar hótanir um viðskiptastríð verða að veruleika.