Hluta­bréf fjár­festingar­risans Berks­hire Hat­haway hafa lækkað um­tals­vert síðustu mánuði, sam­hliða því sem War­ren Buf­fett, 94 ára, undir­býr starfs­lok eftir meira en sex ára­tugi í brúnni.

Lækkunin hefur komið þrátt fyrir sterka rekstrarniður­stöðu félagsins og vaxandi hagnað í lykil­starf­semi þess.

Frá 2. maí, deginum áður en Buf­fett til­kynnti að Greg Abel myndi taka við sem for­stjóri, hafa A-hluta­bréf Berks­hire lækkað um 14%.

Á sama tíma­bili hefur S&P 500 hækkað um 11%, að teknu til­liti til arð­greiðslna. Mun þetta vera næst­mesti munur á gengi félagsins miðað við vísitöluna á þriggja mánaða tíma­bili frá árinu 1990.

Verðið á A-hluta­bréfum Berks­hire fór í maí yfir 812.000 Bandaríkja­dali á hlut og hafa þau lengi verið í eigu fjöl­skyldna sem fjár­festu snemma með Buf­fett. Ekki er enn ljóst hverjir hafa verið að selja síðustu vikur en skýrslur frá stærstu stofnana­fjár­festum birtast síðar í þessum mánuði.

Buf­fett hefur um ára­tuga­skeið skapað svo­kallaðan „Buf­fett-premium“, þ.e. viðbótar­virði í verði hluta­bréfa Berks­hire sem rekja má til persónu­legs trúverðug­leika hans sem fjár­festis.

En margir spyrja nú hvort sú viðbót flytjist sjálf­krafa til eftir­mannsins.

„Það er ekki sjálf­gefið að Greg Abel njóti sama trausts á fyrstu metrunum,“ segir Cat­hy Seifert, greiningaraðili hjá CFRA. „Þetta gæti verið tíma­bundið van­traust.“

Þrátt fyrir lækkun bréfa hefur rekstur Berks­hire verið traustur.

Sam­stæðan skilaði 8% meiri rekstrar­hagnaði á öðrum árs­fjórðungi miðað við árið á undan, án til­lits til gengisáhrifa.

Bæði járn­brautarfélagið BNSF og orku- og fram­leiðslufélögin sýndu vöxt.

Buf­fett hefur þó í auknum mæli fært fjár­festingar yfir í reiðufé og skulda­bréf ríkis­sjóðs – lausafé sam­stæðunnar nemur nú 344 milljörðum dala, sem sumir líkja við gull­forða Fort Knox.

Verðmat Berks­hire hafði einnig hækkað hratt fram að aðal­fundi í maí, þá höfðu hluta­bréfin hækkað um nær 19% á stuttum tíma og hlut­fall markaðsvirðis af bók­færðu eigin fé fór í 1,8x, hæsta hlut­fall síðan 2008.

Buf­fett hætti þó að kaupa eigin bréf í maí, sam­kvæmt yfir­lýsingum um að hann geri það aðeins þegar markaðsverð sé undir „innra virði“ félagsins.

Sumir telja þó lík­legt að Buf­fett grípi aftur til endur­kaupa eftir lækkunina.

„Bréfin voru ein­fald­lega orðin of dýr,“ segir Christop­her Bloomstran hjá Semper Augustus Invest­ments, einn af hlut­höfum félagsins.