Hlutabréfaverð fjarskiptafélagsins Nova hefur hækkað um 10% á þremur viðskiptadögum en félagið birti árshlutauppgjör eftir lokun markaða á fimmtudaginn síðasta.
Dagslokagengi Nova var 3,82 krónur á fimmtudaginn en gengi félagsins endaði í 4,20 krónum í dag eftir um 4% hækkun í 248 milljón króna viðskiptum.
Hlutabréfaverð Eimskips hækkaði í viðskiptum dagsins en gámaflutningafélagið skilaði árshlutauppgjöri eftir lokun markaða í dag.
Gengi Eimskip hækkaði um rúm 3% í 215 milljón króna veltu. Gengi félagsins hefur nú hækkað um tæp 9% síðastliðinn mánuð en töluverðar áskoranir hafa verið í skipaflutningum á árinu og hefur gengi Eimskip lækkað um 18% það sem af er ári.
Hlutabréfaverð Eimskips stóð í 314 krónum um miðjan október og hafði gengi félagsins þá ekki verið lægra í meira en þrjú ár.
Festi var eina félagið sem lækkaði um meira en eitt prósent í dag. Gengi hlutabréfa smásölufyrirtækisins féll um 1,5% í 345 milljóna veltu og stendur nú í 262 krónum á hlut.
Hlutabréfaverð Festi hefur verið á talsverðu skriði undanfarna daga og hefur hækkað um 12% á undanförnum mánuði, þrátt fyrir lækkun dagsins.