Hluthafafundur flugfélagsins Fly Play hf. samþykkti einróma í dag að veita stjórn félagsins heimild til útgáfu breytanlegra skuldabréfa að samtals hámarki 2.875 milljónum króna.
Tvær aðskildar útgáfur voru samþykktar. Samkvæmt samþykktum fundarins má félagið gefa út:
Breytanleg skuldabréf að höfuðstól nema allt að 2.425 milljónum króna.
Breytanleg skuldabréf að höfuðstól nema allt að 450 milljónum króna til viðbótar.
Í báðum tilvikum voru tillögurnar samþykktar af hluthöfum sem samanlagt höfðu 100% atkvæðisréttar á fundinum.
Hluthafar samþykktu jafnframt að veita stjórn heimild til að hækka hlutafé félagsins um allt að 4.150 milljónir króna að nafnverði til að uppfylla réttindi skuldabréfaeigenda sem nýta umbreytingarrétt sinn. Samhliða var samþykkt breyting á samþykktum félagsins í samræmi við þessar ákvarðanir.
Play tilkynnti fyrir mánuði síðan um að félagið hefði tryggt sér áskriftarloforð um kaup fjárfesta á breytanlegu skuldabréfi að samanlögðu andvirði 2.425 milljóna króna eða um 20 milljóna dala.
Breytanlegu skuldabréfin munu bera 17,5% fasta vexti og er gjalddagi 24 mánuðum eftir útgáfudag.
Engar vaxtagreiðslur fara fram fyrstu 12 mánuði lánstímans, en áfallnir og ógreiddir vextir bætast við höfuðstól á 12 mánaða fresti.
Þar á eftir greiðast vextir mánaðarlega sem nema helmingi áfallinna vaxta vegna hvers mánaðar.
Stjórn Play segir í greinargerð með tillögum fyrir hluthafafundinn að fjármögnunin sé nauðsynleg til þess að styrkja rekstur félagsins í ljósi neikvæðrar rekstrarniðurstöðu síðustu missera.
Þá verður fjármagni varið í tilfallandi kostnað sem fylgir umbreytingu á rekstrarmódeli félagsins.
Háir vextir vekja athygli
Útgáfa breytanlegra skuldabréfa Play hefur áður vakið athygli á markaði vegna tiltölulega hárra vaxta, sem fjárfestar hafa þó verið reiðubúnir að samþykkja í ljósi vaxtastigs og áhættumats flugrekstrar.
Samþykktir fundarins gefa félaginu svigrúm til frekari fjármögnunar í gegnum slík bréf og mögulegrar umbreytingar í hlutafé.