Kaup VÍS á Fossum fjárfestingarbanka voru samþykkt með afgerandi niðurstöðu á hluthafafundi VÍS sem lauk um fimm leytið í dag.

Á hluthafafundinum var tillaga um hækkun hlutafjár félagsins um allt að 245 milljónir króna að nafnverði vegna kaupanna samþykkt með 83% greiddra atkvæða. Þannig fá hluthafar Fossa greidda 245 milljón nýja hluti í VÍS, sem nemur 12,62% hlutafjár eftir hlutafjáraukningu.

Félögin tilkynntu um samrunaviðræðurnar í febrúar sl. Þá var gert ráð fyrir að hluthafar Fossa myndu fá 260 milljón nýja hluti í VÍS, eða sem nemur 13,3% hlutafjár eftir hlutafjáraukningu, og lækkaði kaupverðið á Fossum því lítillega frá því í febrúar.

Stærstu hluthafar Fossa eru hjónin Sigurbjörn Þorkelsson og Aðalheiður Magnúsdóttir, en þau eiga 45% hlut í félaginu. Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa, á 25% hlut og Steingrímur Arnar Finnsson framkvæmdastjóri markaðsviðskipta á 17% hlut.

Í hluthafahópi VÍS eru lífeyrissjóðir áberandi, en þeir eiga meira en 50% hlut í félaginu. Skel fjárfestingafélag á 9,3% hlut og Sjávarsýn, fjárfestingarfélag Bjarna Ármannssonar, á 7,3% hlut.

Gildi lagðist gegn kaupunum

Líklegt má teljast að Gildi lífeyrissjóður, þriðji stærsti hluthafinn í VÍS, hafi kosið gegn kaupunum. Davíð Rúdólfsson, forstöðumaður eignastýringar sjóðsins, hafði í aðdraganda fundarins lýst því yfir að hann taldi verðmæti Fossa ofmetið.

„Að óbreyttu þá sé ég ekki fyrir mér að við munum samþykkja þessa tillögu um kaup á Fossum," sagði Davíð í viðtali hjá Heimildinni fyrr í vikunni.

Tveir forstjórar verða yfir hinu sameinaða félagi VÍS og Fossa.

Guðný Helga Herbertsdóttir núverandi forstjóri VÍS sem tók við af Helga Bjarnasyni í lok febrúar mun bera ábyrgð á tryggingarekstri en Haraldur Þórðarson forstjóri Fossa á þróun fjármálastarfsemi, fjármögnun og framtíðarskipulagi. Haraldur mun auk þess stýra rekstri samstæðunnar.

Steingrímur Arnar Finnsson mun stýra fjárfestingabankastarfseminni og Arnór Gunnarsson kemur til með að stýra SIV eignastýringu.