Fjöldi hluthafa hjá Íslandsbanka voru 14,3 þúsund talsins í lok júní og hefur nú fækkað um 40% frá skráningu bankans í Kauphöllina fyrir rúmu ári þegar þeir voru 24 þúsund. Af hluthöfum Íslandsbanka eru 8,2% erlendir fjárfestar. Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri Íslandsbanka sem var birt í gær.

Hluthöfum Íslandsbanka fækkaði úr 24 þúsund í 20 þúsund á rúmum þremur vikum eftir frumútboð bankans í júní 2021 sem má að líkindum rekja til þess að gengi bankans hækkaði um ríflega þriðjung fyrstu tvær vikurnar eftir fyrra útboðið.

Í lok október 2021 voru hluthafar bankans ríflega 17 þúsund talsins og í lok síðasta árs voru þeir um 15,7 þúsund. Á fyrstu sex mánuðum þessa árs hefur hluthöfum svo fækkað um tæplega 1,4 þúsund og voru þeir eins og fyrr segir um 14.300 talsins í lok júní.

Bankasýsla ríkisins, sem heldur utan um hlut ríkissjóðs í Íslandsbanka, seldi 35% hlut í bankanum við frumútboð hans í júní 2021. Í lok mars síðastliðnum seldi Bankasýslan 22,5% hlut í lokuðu útboði og fer ríkið því með 42,5% hlut í bankanum.

Stærstu hluthafar þar á eftir eru lífeyrissjóðirnir LSR með 7,2%, Gildi með 6,5% og Lífeyrissjóður verzlunarmanna með 6,1%. Bandaríska sjóðastýringafyrirtækið Capital fer svo með 5,2% hlut í bankanum.