Birta lífeyrissjóður stækkaði hlut sinn í Play á mánudaginn og á nú 10,1% hlut í flugfélaginu, samkvæmt flöggunartilkynningu.

Birta keypti 8,7 milljónir hluti í Play fyrir ríflega 15 milljónir króna á mánudaginn ef miðað er við dagslokagengi hlutabréfa flugfélagsins. Birta á nú 190,8 milljónir hluti í Play, eða um 10,1% hlut, sem er um 324 milljónir króna að markaðsvirði.

Hlutabréfaverð Play hefur lækkað talsvert síðustu vikur og stóð það í 1,70 krónum á hlut við lokun Kauphallarinnar í gær, sem er lægsta dagslokagengi hlutabréfa félagsins frá skráningu. Markaðsgengi Play er um 62% lægra en 4,5 krónu útgáfuverðið í 4,6 milljarða króna hlutafjáraukningunni sem félagið lauk í vor.

Birta keypti í Play fyrir nærri einn milljarð króna í lokuðu hlutafjárútboði í apríl 2021 þar sem flugfélagið sótti rúma sex milljarða. Þá skráði lífeyrissjóðurinn sig fyrir 300 milljónir króna í hlutafjáraukningu Plau í árslok 2022.

Birta tók einnig þátt í hlutafjáraukningu Play í vor og má ætla að lífeyrissjóðurinn hafi skráð sig fyrir yfir 300 milljónir miðað við breytingu á eignarhlut sjóðsins milli mars og apríl.

Stærstu hluthafar Play í lok ágúst (fyrir síðustu kaup Birtu)

Hluthafi Fjöldi hluta Í %
Birta lífeyrissjóður 182.054.879,0 9,62
Stoðir hf. 110.000.000,0 5,82
Fea ehf. 101.700.903,0 5,38
Leika fjárfestingar ehf. 93.596.040,0 4,95
Landsbankinn hf. 67.538.671,0 3,57
IS EQUUS Hlutabréf 65.779.384,0 3,48
Einir ehf. 55.555.556,0 2,94
Gnitanes ehf. 55.555.556,0 2,94
IS Hlutabréfasjóðurinn 49.748.023,0 2,63
Lífsverk lífeyrissjóður 48.457.787,0 2,56
Akta Stokkur hs. 40.267.681,0 2,13
Íslandsbanki hf,safnskráning 2 40.000.000,0 2,11
TM tryggingar hf. 37.096.324,0 1,96
Pólaris ehf. 36.483.333,0 1,93
Arion banki hf. 34.766.131,0 1,84
Lífeyrissjóður Vestmannaeyja 34.000.000,0 1,80
Stefnir - Innlend hlutabréf hs. 33.507.867,0 1,77
Rea ehf. 33.333.333,0 1,76
Eignarhaldsfélagið Mata hf. 31.937.974,0 1,69
Vátryggingafélag Íslands hf. 31.514.661,0 1,67