Minna þekkt vísitala um verðþróun á fasteignamarkaði bendir ekki til sérstakra hækkunaráhrifa vegna fyrstu kaupenda nýrra íbúða með hlutdeildarlánum. Þetta segir í tilkynningu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) í tilefni af umfjöllun Viðskiptablaðsins um áhrif rýmkunar á skilyrðum hlutdeildarlána á þróun verðbólgu.

Greiningar­deild Lands­bankans og Kon­ráð S. Guð­jóns­son, aðal­hag­fræðingur Arion banka, hafa á síðustu dögum sagt að ákvörðun innviðaráðherra að útvíkka skilyrði fyrir hlutdeildarlán í sumar virðist hafa einna mest áhrif til hækkunar á íbúðaverði á síðustu mánuðum. Fyrir vikið muni taka lengri tíma að kveða niður verðbólguna.

„Til að sannreyna hvort hægt sé að draga þessa ályktun skoðuðu sérfræðingar HMS undirliggjandi gögn um verðþróun íbúða sem eru sambærilegar þeim sem falla undir skilyrði fyrir veitingu hlutdeildarlána,“ segir í tilkynningu HMS.

Hagfræðingar HMS báru fyrst saman annars vegar vísitölu húsnæðisverðs – sem tekur til allra eigna, bæði eldri og nýrra - og hins vegar vísitölu paraðra viðskipta sem mælir verðþróun eldri eigna. Vísitala paraðra eigna mælir verðþróun með því að skoða kaup og sölu sömu eigna á mismunandi tímum. Nýjar eignir eru ekki teknar með í vísitölu paraðra viðskipta.

„Hlutdeildarlán eru eingöngu veitt til kaupa á nýbyggðum íbúðum og eingöngu til fyrstu kaupenda og því eru líkur til þess að vísitala paraðra eigna hefði hækkað nokkuð minna en húsnæðisvísitalan ef það var rýmkun á hlutdeildarlánunum sem olli hækkunartakti fasteignaverðs á haustmánuðum.“

Segja verðhækkun drifna áfram af eldri eignum

HMS segir að um mitt ár 2021 hafi báðar vísitölurnar sýnt sambærilega verðþróun. Á þeim tíma hafi vísitala paraðra viðskipta sýnt að eldra húsnæði hækkaði minna en nýtt.

Í maí á þessu ári hafi þessi þróun hins vegar snúist við og vísitala paraðra viðskipta farið að hækka hraðar. Sé horft til síðustu 12 mánaða sýni vísitala paraðra viðskipta 5,6% hækkun samanborið við 2,6% hækkun á vísitölu íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu.

„Sé horft til síðustu mælinga í samhengi má fullyrða að báðar vísitölur sýni nokkuð sambærilega þróun síðustu 12 mánuði og ekki sé merkjanlegur munur á verðþróun hvort sem nýjum eignum er sleppt eða ekki. Þvert á móti virðist verðhækkun síðustu mánaða frekar drifin áfram af eldri eignum og því er óvarlegt að álykta að beint samband sé á milli hækkunar fasteignaverðs síðustu mánaða og ráðstöfunar stjórnvalda varðandi hlutdeildarlánin.“