Hopp ehf. hefur verið valið Vaxtarsproti ársins en um er að ræða viðurkenningu fyrir öfluga uppbyggingu sprotafyrirtækis. Velta fyrirtækisins jókst um 970% á milli áranna 2021 og 2022 þegar veltan fór úr 72 milljónum króna í 770 milljónir króna.
Hopp ehf. þróar hugbúnað sem gerir fólki kleift að opna Hopp-útibú með sérleyfi á sínum heimaslóðum. Í dag eru virk sérleyfi Hopp í 56 bæjum í 12 löndum. Hopp á engar rafskútur en sjálfstæð fyrirtæki eru rekin undir heiti Hopp í hverju bæjarfélagi. Fyrirtækin gera samninga við Hopp um rekstur á hugbúnaði og þjónustu vegna hans.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sem afhenti Vaxtarsprotann í Flórunni í Grasagarðinum í Laugardal í morgun en tvö önnur fyrirtæki hlutu einnig viðurkenningar.
Dohop hlaut viðurkenningu fyrir góðan vöxt í flokki fyrirtækja með 100-1000 milljónir króna í veltu fyrra árs. Velta fyrirtækisins jókst um 265% á milli ára, fór úr 300 milljónum króna í 1,1 milljarð króna milli 2021 og 2022.
Lauf Forks hlaut þá viðurkenningu fyrir að ná veltu í fyrsta skipti yfir 1 milljarði króna á síðasta ári en fyrirtækið fór úr 924 milljóna króna veltu árið 2021 í 1,4 milljarða króna veltu árið 2022. Lauf Forks þróar og framleiðir einstaka hjólagaffla og fjöðrun fyrir fjallahjól.
Vaxtarsprotinn er samstarfsverkefni Samtaka iðnaðarins, Samtaka sprotafyrirtækja, Háskólans í Reykjavík og Rannsóknarmiðstöðvar Íslands. Tilgangur verkefnisins er að vekja athygli á góðum árangri sprotafyrirtækja í örum vexti og skapa þannig aukinn áhuga og skilning á uppbyggingarstarfi þessara fyrirtækja.