Hundruð starfsmanna á flugvellinum Heathrow í London munu fara í þriggja dag verkfall í byrjun Heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu að sögn forsvarsmanna verkalýðsfélagsins Unite. BBC greinir frá.

Unite sagði að um 700 starfsmenn hjá fyrirtækjunum Dnata og Menzies sem starfa við flugafgreiðslu og við fraktflutninga muni fara í verkfall 18.-20. nóvember næstkomandi. HM í knattspyrnu, sem haldið er í Katar, hefst þann 20. nóvember. Krafist er hærri launa.

Unite segir að verkfallið muni leiða til tafa og röskunar á starfsemi á flugstöðvum 2,3 og 4 á Heathrow. Verkalýðsfélagið tók fram að það væntir þess að Qatar Airways, sem hefur fjölgað flugferðum í kringum mótið, muni finna sérstaklega fyrir verkfallinu.

Talsmaður Heathrow segir að flugvöllurinn eigi í samskiptum við flugfélög um varúðarráðstafanir til að lágmarka truflun á starfseminni ef af verkfallinu verður.

Framkvæmdastjóri Dnata UK sagði að aðgerðir Unata væru bæði vonbrigði og kostnaðarsamar. Fyrirtækið hafi boðið kjarabót sem væri í samræmi við verðbólgu „og með þeim bestu í iðnaðinum“.