Donald Trump hefur hótað að leggja 35% innflutningstoll á kanadískar vörur frá og með 1. ágúst nk. en forsetinn tilkynnti þetta í gærkvöldi. Á vef WSJ segir að undanþága væri gefin fyrir vörur sem falla undir núverandi fríverslunarsamning Bandaríkjanna, Mexíkó og Kanada.

Trump hefur áður lagt 25% toll á þær vörur sem falla ekki undir USMCA-samninginn en nýi tollurinn, sem tilkynntur var í bréfi til Marks Carney, forsætisráðherra Kanada, hækkar þann toll um 10%.

Carney tilkynnti seint í gær á samfélagsmiðlum að kanadískir embættismenn myndu vinna með Bandaríkjamönnum að því að ná samkomulagi fyrir byrjun ágúst.

Í bréfinu segir jafnframt að Trump myndi hækka tollana enn frekar ef Kanada ákveði að beita refsitollum. Hann kvartaði einnig yfir takmörkunum á innflutningi mjólkurvara og sagði að Kanada þyrfti að gera meira til að takmarka flæði fentanýls til Bandaríkjanna.