Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur lýst því yfir að hann muni ekki fresta gildistöku tolla umfram 1. ágúst næstkomandi. Hann hótaði einnig allt að 200% tollum á innflutt lyf og 50% tolla á kopar. WSJ greinir frá.

Trump tilkynnti 14 þjóðum í dag, flestar frá Asíu, um ný álagningarhlutföll tolla á viðkomandi ríki. Þannig var Japan og Suður-Kóreu tilkynnt um að stjórnvöld í Bandaríkjunum hyggist leggja á 25% tolla á vörur sem fluttar eru inn þaðan.

Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um í dag er umfang tollanna nokkurn veginn í samræmi við það sem forsetinn tilkynnti um í byrjun apríl.

Trump sagði í færslu á Truth Social að stjórnvöld muni upplýsa fleiri viðskiptalönd Bandaríkjanna um hvað tollar verði háir á vörur frá viðkomandi ríkjum síðar í dag. Þá sagði hann á ríkisstjórnarfundi í dag að Evrópusambandið gæti fengið slíkt erindi á næstu tveimur dögum.

Svokallaðar BRICS-þjóðir (Brasilía, Rússland, Indland, Kína og Suður-Afríka) munu greiða 10% viðbótartolla.