Donald Trump varar nú við því að ríki sem styðja við stefnu hinna svokölluðu BRICS-þjóða (Brasilía, Rússland, Indland, Kína og Suður-Afríka) munu sæta aukatollum upp á 10%. Hann segir að engar undantekningar verði gerðar á þeirri stefnu.
Á vef BBC segir að Trump hafi lengi gagnrýnt bandalagið, sem hann hélt ranglega fyrr á þessu ári að Spánverjar væru hluti af, en BRICS-samstarfið hófst til að styrkja stöðu hinna umræddu ríkja gegn ríkjandi stöðu Bandaríkjanna og Vestur-Evrópu.
Frestur til að semja um nýja viðskiptasamninga milli Bandaríkjanna og allra þeirra ríkja sem aukatollar voru settir á rennur út á miðvikudaginn í þessari viku en bandarískir embættismenn segja nú að tollarnir taki ekki gildi fyrr en í byrjun ágúst.
Hingað til hafa Bandaríkin aðeins gert viðskiptasamning við Bretland og Víetnam en samkvæmt tilkynningu sem kom frá forsetanum í gær verða 10 til 15 bréf send út í dag til ákveðinna ríkja þar sem greint verður frá 10% tollaaukningu.
BRICS-bandalagið var formlega stofnað árið 2009 og hefur síðan þá stækkað töluvert. Í fyrra hafði bandalagið teygt sig langt út fyrir sinn upprunalega ramma og telur nú einnig Egyptaland, Eþíópíu, Indónesíu, Íran, Sádi-Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmin, eða meira en helming allra íbúa heimsins.