Samkeppniseftirlitið (SKE) og Hreyfill hafa gert með sér sátt vegna háttsemi Hreyfils sem fólst í því að banna leigubifreiðastjórum sem eru í þjónustu hjá Hreyfli að nýta sér þjónustu annarra leigubifreiðastöðva. Með sáttinni lýkur rannsókn Samkeppniseftirlitsins á Hreyfli.
Samkeppniseftirlitið tók bráðabirgðaákvörðun í júlí 2023 vegna „sennilegs brots Hreyfils“ gegn samkeppnislögum. Þá kom fram að Hreyfill hefði komið í veg fyrir að leigubifreiðastjórar sem keyra fyrir stöðina nýti sér þjónustu Hopp leigubíla ehf. sem hafði þá nýverið hafið starfsemi.
Í frétt á vef SKE segir að í sáttinni felst að Hreyfill muni ekki hindra að leigubifreiðastjórar sem keyra fyrir stöðina nýti sér jafnframt aðra þjónustuaðila sem sinna leigubifreiðastjórum.
Hreyfill muni auki þess gera aðrar nauðsynlegar breytingar á annars vegar samþykktum félagsins og hins vegar stöðvarreglum þess til að tryggja samræmi við þær skyldur sem hvíla á Hreyfli samkvæmt samkeppnislögum.
„Samkeppniseftirlitið vill beina þeim almennu tilmælum til leigubifreiðastöðva sem starfa á Íslandi að gæta að því að samningar þeirra við leigubifreiðastjóra feli ekki sér ólögmætar samkeppnishindranir.“