Air New Zealand hefur tilkynnt að það muni hætta að fljúga til Chicago tímabundið vegna skorts á hreyflum fyrir Boeing 787 Dreamliner-flugvélarnar sínar.
Frá og með 31. mars mun flugfélagið hætta að fljúga á milli Auckland og Chicago vegna minnkandi framboðs á Rolls-Royce Trent 1000 hreyflum sem flugvélin notast við.
„Rolls-Royce hefur ekki náð að útvega Air New Zealand varahreyfla til að fullnægja þjónustu sinni og þurfum við því að skera niður í þjónustu á 787-flugflota okkar,“ segir í tilkynningu frá flugfélaginu.
Air New Zealand bætir við að þrjár flugvélar verði með öllu ónothæfar í ákveðinn tíma en flugfélagið mun engu að síður viðhalda áætlunarflugi sínu til sex borga víðs vegar um Bandaríkin og Kanada.
Flugfloti Air New Zealand samanstóð af 105 flugvélum í lok október en þar af voru fjórtán Boeing 787-þotur.