Hærra álverð og hækkun raforkuverðs vegna orkuskorts voru helstu ástæður þess að HS Orka skilaði besta rekstrarári í sögu félagsins í fyrra, að því er segir í tilkynningu. „Ársuppgjör HS Orku fyrir árið 2022 sýnir að reksturinn er traustur og gefur okkur svigrúm til frekari vaxtar,“ segir Tómas Már Sigurðsson, forstjóri félagsins.

Samkvæmt ársreikningi námu rekstrartekjur 10,6 milljörðum króna sem er 14,7% hækkun frá fyrra ári. Rekstrarhagnaður (EBITDA) nam 4,6 milljörðum króna árið 2022 samanborið við 3,6 milljarða árið áður og hækkaði því um 28,2% á milli ára. Hagnaður félagsins fyrir tekjuskatt var 87 milljónir króna á árinu 2022, samanborið við 2.816 milljónir árið 2021. Eigið fé nam 28,6 milljörðum króna í árslok og eiginfjárhlutfall var 41,5%.

Ársuppgjör HS Orku fyrir árið 2022 sýnir að reksturinn er traustur og gefur okkur svigrúm til frekari vaxtar - Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku.

Stækkun í Svartsengi og uppbygging Auðlindagarðs í farvatninu

Stækkun Reykjanesvirkjunar lauk á síðasta ári. Næsta stóra verkefni félagsins er endurnýjun og stækkun orkuversins í Svartsengi. Fjármögnun þess var tryggð með aðkomu tveggja erlendra banka og hluthafa HS Orku, þrátt fyrir umrót á alþjóðlegum fjármálamörkuðum að því er segir í tilkynningu.

„Á grunni Auðlindagarðsins og með sjálfbærni að leiðarljósi búum við í haginn með fleiri langtímasamningum og höfum lagt grunn að metnaðarfullum framtíðarverkefnum á sviði orkuvinnslu. Með þessu móti leggjum við okkar af mörkum til að Ísland geti staðið við alþjóðlegar skuldbindingar sínar í loftslagsmálum,“ segir Tómas Már.

Eldgos ekki haft áhrif

Eldgos og jarðhræringar síðasta árs höfðu hvorki áhrif á orkuvinnslu né afkomu ársins. Fastafjármunir jukust um 5,5 milljarða á milli ára, aðallega vegna nýfjárfestingar í stækkun Reykjanesvirkjunar. Veltufjármunir jukust um 4 milljarða króna, þar sem handbært fé hækkaði vegna víkjandi hluthafaláns vegna stækkunar í Svartsengi. Vaxtaberandi skuldir jukust um 10,5 milljarða á milli ára.

Á árinu 2022 gaf HS Orka út grænan fjármögnunarramma í fyrsta sinn og hefur verkefnasafn fyrirtækisins hlotið hæstu einkunn matsfyrirtækisins Cicero.

Orkuskortur verið mikið til umræðu

Undanfarið hefur umræða um stöðu og framtíð raforkuframleiðslu verið fyrirferðarmikil. Þannig hafa fyrirtæki eins og Landsvirkjun, samtök á borð við Samtök Iðnaðarins og Viðskiptaráð, stofnanir eins og Landsnet auk sérfræðinga í raforkugeiranum bent á að skortur á raforkuframleiðslu og dreifigetu komi til með að hafa neikvæð áhrif á íslenskt efnahagslíf verði ekkert að gert.

Sömu niðurstöður má greina úr stöðuskýrslu stjórnvalda um stöðu og áskoranir í orkumálum, sem var gefin út fyrir rúmu ári síðan. Í þessu samhengi hefur verið kallað eftir aðgerðum og ákvarðanatöku af hálfu stjórnvalda.

Á hinn bóginn hafa samtök á borð við Landvernd sagt umræðuna á villigötum og sagt fullyrðingar um orkuskort vera áróður orkugeirans.