Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Men & Mice hefur verið selt til alþjóðlega félagsins BlueCat Networks. Þetta kemur fram í frétt Innherja en fyrirtækið er að stærstum hluta óbeint í eigu lífeyrissjóða.

Félagið var verðmetið á um 3,5 milljarða króna um síðustu áramót en engar upplýsingar hafa verið birtar um kaupverðið. Sjóður í rekstri Stefnis keypti ráðandi hlut í fyrirtækinu fyrir fjórum árum og margfaldaðist virði þess í kjölfarið.

BlueCat er með höfuðstöðvar í Toronto og New York og sér um þróun og sölu á hugbúnaðarlausnum líkt og Men & Mice.

Í samtali við Innherja, segir Magnús Eðvald Björnsson, forstjóri Men & Mice að salan til BlueCat sé rétta skrefið í áframhaldandi vöxt fyrirtækisins en Magnús fer jafnframt með rúmlega fimm prósenta hlut í félaginu.