Útflutningstekjur hugverka- og tækniiðnaðar hafa fjórfaldast frá aldamótum og verður greinin orðin stærsta útflutningsstoðin í íslenska hagkerfinu fyrir lok þessa áratugar ef fer fram sem horfir.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri greiningu á íslenskum iðnaði í alþjóðlegu umhverfi sem Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins (SI), hefur gert og kynnt er á Iðnþingi sem fer fram í dag.
Undir hugverkaiðnað falla m.a. fyrirtæki í upplýsingatækni- og fjarskiptaiðnaði, tölvuleikjagerð, kvikmyndagerð, lyfjaframleiðslu, líf- og heilbrigðistækni og ýmsum hátækniiðnaði.
Hlutfall hugverkaiðnaðar af útflutningstekjum var um 4% árið 2000 en er nú 16%. Könnun meðal félagsmanna SI leiðir í ljós að áform um vöxt eru langmest innan hugverka- og tæknitengdra greina.
„Gera má ráð fyrir að 29% útflutningstekna verði til vegna hugverkatengdrar starfsemi árið 2030 og að greinin verði þá orðin stærst af meginstoðunum fjórum; sjávarútvegi, orkusæknum iðnaði, ferðaþjónustu og hugverkaiðnaði,“ segir í tilkynningu SI.

Sjávarútvegurinn með 60% útflutningstekna árið 1980
Samtökin segja íslenskan iðnað hafa vaxið verulega undanfarna áratugi. Gríðarleg breyting hafi orðið frá árinu 1980 en þá skilaði sjávarútvegur tæplega 60% útflutningstekna landsins.
„Þrátt fyrir að sjávarútvegur skapi enn mikil verðmæti skýrist lægra hlutfall af vexti hinna stærstu greinanna sem um leið hafa skilað meiri fjölbreytni og viðnámsþrótti í íslensku efnahagslífi. Iðnaður í heild er nú stærsta útflutningsgreinin og skilar um 48% útflutningstekna.“
