Ef samruni Arion banka og Kviku banka gengur í gegn verður um að ræða tíunda samruna eða yfirtöku Kviku frá stofnun fyrirtækisins fyrir áratug. Um leið yrði samruninn sá langstærsti í sögu Kviku og einn sá stærsti sem ráðist hefur verið í innan íslensks fjármálakerfis frá hruni. Þess má þó vænta að Samkeppniseftirlitið setji ýmsa fyrirvara og skilyrði eigi samruninn að fá samþykki þess, til að mynda um aðskilnað eða sölu dótturfélaga eða rekstrareininga. Þar munu togast á kostir stærðarhagkvæmninnar og samkeppnissjónarmið.

Talið hefur verið að við formlegar samrunaviðræður milli Arion og Kviku yrði horft til þess að Kvika banki myndi selja frá sér eignastýringarstarfsemi sína til að liðka fyrir samþykki Samkeppniseftirlitsins, en Arion banki hefur verið með leiðandi stöðu á þeim markaði. Bankinn styrkti enn frekar stöðu sína á sviði eignastýringar síðastliðið haust með kaupum á Arngrimsson Advisors Limited. Við kaupin jukust eignir í stýringu hjá Arion um rúma 170 milljarða króna.

Á móti kann sala Kviku á TM tryggingum til Landsbankans að einfalda mögulegan samruna Kviku og Arion, en síðarnefndi bankinn á tryggingafélagið Vörð

Skagi, móðurfélag VÍS og Fossa fjárfestingarbanka, hefur verið nefndur sem mögulegur kaupandi Kviku eignastýringar. Skagi hefur lýst yfir áhuga á ytri vexti ef slík tækifæri eru til staðar, þar á meðal í eignastýringu.

Ef svo ólíklega vildi til að Samkeppniseftirlitið myndi heimila samruna bankanna án skilyrða um eignasölu, eða annarra slíkra kvaða, yrði þó ekki til stærsta fjármálafyrirtæki landsins þegar horft er til eigna og eiginfjárstöðu. Þannig námu bókfærðar eignir Landsbankans um 2.258 milljörðum króna og eigið fé 314 milljörðum í lok fyrsta ársfjórðungs. Til samanburðar námu samanlagðar eignir Arion og Kviku um 2.030 milljörðum og eigið fé 265 milljörðum á sama tíma.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.