Óli Björn Kárason, þingmaður og þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, mælti í vikunni fyrir frumvarpi sínu um félagafrelsi á vinnumarkaði. Frumvarpinu er ætlað að tryggja stjórnarskrárvarinn rétt launafólks, sem hann telur að hafi fram til þessa að mörgu leyti verið virtur að vettugi á íslenskum vinnumarkaði. Hann bendir á að í núverandi löggjöf geti launafólk sem stendur utan stéttarfélaga verið skyldað til að greiða iðgjald til stéttarfélags, settir þeir afarkostir að þurfa að ganga í stéttarfélag ellegar missa vinnuna og verið bundið af verkfallsboðun stéttarfélags án þess að fá það bætt líkt og félagsmönnum, hvorki úr verkfallssjóði né með atvinnuleysisbótum.

Verði frumvarpið samþykkt verður óheimilt að skrá launafólk í stéttarfélag án samþykkis þess, líkt og algengt er á íslenskum vinnumarkaði. Þá verður vinnuveitanda óheimilt að draga iðgjald til stéttarfélags af launum ófélagsbundins starfsmanns. Á opinberum vinnumarkaði hvílir bein lagaskylda á hinu opinbera að draga af launum ófélagsbundinna starfsmanna iðgjald til þess stéttarfélags sem þeir „eiga“ að tilheyra. Á almennum vinnumarkaði má aftur á móti ráða af orðalagi starfskjaralaga að slík skylda sé einungis fyrir hendi ef sérstaklega er kveðið á um hana í kjarasamningum. „Ég veit ekki betur en það sé einungis við lýði hjá sjómönnum í dag. Það er hins vegar ekkert því til fyrirstöðu í núverandi lagaumhverfi að aðilar vinnumarkaðarins semji um slíka greiðsluskyldu,“ segir Óli Björn.

Með frumvarpinu verða svokölluð forgangsréttarákvæði bönnuð. Í þeim felst að félagsmenn þeirra stéttarfélaga sem gert hafa kjarasamning við vinnuveitandann hafa forgang varðandi ráðningar og uppsagnir starfsfólks. „Launamanni getur því verið nauðugur sá kostur að ganga í félagið, einungis til þess að verja sitt starf, því atvinnurekandanum er ekki heimilt samkvæmt gildandi lögum að beita mati við það og fara eftir hæfni og dugnaði starfsmanns þegar kemur að uppsögn,“ segir Óli Björn. Þá nefnir hann að Evrópunefndin um félagsleg réttindi hafi ítrekað ályktað að íslenska ríkið uppfylli ekki skyldur sínar samkvæmt félagsmálasáttmálanum, sem Ísland er aðili að, með því að leyfa þessum ákvæðum kjarasamninga að viðgangast. „Nefndin hefur komist að þeirri niðurstöðu að þetta brjóti gegn félagafrelsinu og félagsmálasáttmálanum.“

Ég veit ekki betur en það sé einungis við lýði hjá sjómönnum í dag. Það er hins vegar ekkert því til fyrirstöðu í núverandi lagaumhverfi að aðilar vinnumarkaðarins semji um slíka greiðsluskyldu.

Þá verður einnig tekið skýrt fram að ákvörðun um vinnustöðvun taki einungis til félagsmanna. Í núverandi lagaramma eru utanfélagsmenn bundnir af ákvörðun stéttarfélags um vinnustöðvun. „Því er meinað að vinna af félagi sem það stendur fyrir utan án þess að vera bætt það líkt og félagsmönnum – hvorki úr verkfallssjóði né með atvinnuleysisbótum,“ segir Óli Björn.

Í dag er atvinnurekendum skylt að greiða að lágmarki 1% af útborguðu kaupi launafólks í sjúkrasjóð viðkomandi stéttarfélags. Í þeim tilvikum sem launafólk stendur utan félaga og það stéttarfélag, sem gerði kjarasamninginn sem launafólkið starfar eftir, neitar að taka við greiðslunum, þá er atvinnurekandanum ekki skylt að tryggja launafólkið fyrir slysum og veikindum. Aftur á móti er ekkert sem skyldar stéttarfélögin til að greiða launafólki úr sjúkrasjóðunum vegna slysa eða veikinda ef atvinnurekandinn hefur greitt í sjúkrasjóðinn en launþeginn stendur utan félagsins. „Með frumvarpinu verður atvinnurekandanum skylt að tryggja launafólk í öllum tilfellum. Neiti stéttarfélag að taka við greiðslum launafólks sem stendur utan þess, þá þarf atvinnurekandinn að tryggja starfsmanninn á annan hátt,“ segir Óli Björn.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, sem kom út 19. október.