Íslandsbanki var skráður í Kauphöllina að undangengnu almennu hlutafjárútboði í júní 2021 þar sem ríkið seldi 35% eignarhlut fyrir 55,3 milljarða króna. Alls bárust tilboð upp á 486 milljarða króna og var því tæplega níföld eftirspurn.
Tæplega 24 þúsund hluthafar eignuðust hlut, og var bankinn á þeim tíma með mesta fjölda hluthafa allra skráðra fyrirtækja á landinu.
„Ef litið er til sambærilegra útboða var hlutdeild almennra fjárfesta ein sú hæsta sem um getur,“ segir í skýrslu fjármálaráðherra um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka í umræddu útboði sem birt var í febrúar 2022.
Af þeim tæplega 24 þúsund áskriftum sem bárust voru 16.703 áskrifendur sem þurftu ekki að sæta skerðingu. Þá fengu 5.953 hluthafar, sem voru skertir, úthlutað hlutum að andvirði 1.000.061 krónur.
Önnur nálgun í frumútboðinu
Einstaklingar fengu samtals úthlutað 33,6% af úthlutunarvirði í téðu hlutafjárútboði 2021. Til samanburðar fengu lífeyrissjóðir úthlutað 29,2% hlut og erlendir fjárfestar 30,0% hlut.
Í ofangreindri skýrslu kemur fram að lagt hafi verið mat á það að hækka úthlutun til einstaklinga að einhverju leyti, en ráðgjafar Bankasýslu ríkisins, sem hélt þá utan um hlut ríkisins í Íslandsbanka, töldu það ekki ráðlegt vegna þess að með því að auka hlut almennra fjárfesta í útboðinu yrði hlutur fagfjárfesta skertur enn frekar umfram það sem boðað hafði verið.
Þá taldi Bankasýslan dæmi um að áskriftir á meðal innlendra fjárfesta gætu verið mun hærri en raunveruleg fjárfestingargeta þeirra.
Hvað fá einstaklingar stóran hluta í þetta skiptið?
Ólíkt yfirstandandi hlutafjárútboði með hlut ríkisins í Íslandsbanka var almenningur ekki með forgang í frumútboðinu sumarið 2021. Það verður því athyglisvert að sjá hversu stór tilboðsbók A, sem er eingöngu ætluð einstaklingum með íslenska kennitölu, verður sem hlutfall af útboðinu.
Í tilboðsbók A er heimilt að gera tilboð fyrir að lágmarki 100 þúsund krónur og allt að fjárhæð 20 milljónir króna. Í tilboðsbók A er fast verð 106,56 krónur á hlut, sem er um 6,9% lægra en dagslokagengi hlutabréfa bankans degi áður en útboðið hófst.
Vegna forgangs almennings verða áskriftir í tilboðsbók A ekki skertar vegna eftirspurnar í tilboðsbókum B og C. Með öðrum orðum verða áskriftir í tilboðsbók A ekki skertar nema tilboðsbók A fylli heildarmagn útboðsins.
Í skráningarlýsingu kemur fram að ef um umframeftirspurn innan tilboðsbókar A er að ræða verði útboðshlutum úthlutað hlutfallslega. Áskriftir í tilboðsbókar A skuli þó ekki skertar niður fyrir 2 milljónir króna, nema það reynist nauðsynlegt til að mæta eftirspurn og skal það þá gert hlutfallslega.
Grunnmagn útboðsins nær til 20% af útistandandi hlut eða sem nemur um 40 milljörðum króna miðað við 106,56 króna útboðsgengið í tilboðsbók A. Fjármálaráðherra hefur heimild til að stækka útboðið upp í allt að 45,2% af almennu hlutafé ríkisins í bankanum.
Fjármálaráðuneytið tilkynnti í morgun um að margföld umframáskrift hafi fengist fyrir grunnmagni útboðsins á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Í tilkynningu ráðuneytisins kom fram að stækkunarheimild kunni að verða nýtt í ljósi umframeftirspurnar.