Í dag undirrituðu bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ og hópur landeigenda viljayfirlýsingu um að ganga til samninga um uppbyggingu Helgafellshverfis. Stefnt er að því að 1.020 íbúðir, 560 í sérbýli og 460 í fjölbýli, rísi í hverfinu sem verður á skjólgóðum útsýnisstað í suðurhlíðum Helgafells með grunnskóla, tveimur leikskólum og fleiri þjónustubyggingum.

Bæjaryfirvöld og landeigendur stefna að því að ljúka vinnu við fyrsta áfanga deiliskipulagsins í mars og þá hefjist gatnagerð og sala lóða í kjölfarið. Búist er við töluverðri spurn eftir þeim fjölbreyttu lóðum sem eru í boði í hverfinu vegna fallegs útsýnis og annarra landkosta.

Samkomulag er um að hluti tekna af sölu byggingarréttar renni til Mosfellsbæjar til að standa straum af kostnaði við uppbyggingu skóla og leikskóla á svæðinu. Þannig má hraða uppbyggingu svo skólarnir anni þörfum íbúa hverfisins á hverjum tíma án mikilla útgjalda fyrir bæjarsjóð. Þá munu landeigendur sjá um og kosta alla gatnagerð, gerð opinna svæða, leikvalla og þess háttar.

Svæðið verður skipulagt á grundvelli verðlaunatillögu. Haldin var samkeppni um skipulag svæðisins og voru fjórir hópar sérfræðinga valdir til þátttöku í samvinnu við Arkítektafélag Íslands. Tillaga frá arkítektastofu Gylfa
Guðjónssonar og félaga varð fyrir valinu. Megininntak verðlaunatillögunnar er að skapa vinalegt umhverfi og skemmtilegan þorpsbrag. Lausnin felst í því að stofnbraut sem liggja átti um svæðið samkvæmt aðalskipulagi er skipt í tvær greinar. Milli þeirra myndast svokallað Auga, sem verður þungamiðja hverfisins, auk þess sem umferðarhraði lækkar úr
60 í 30 km/klst og hávaði minnkar verulega. Umhverfis Augað verða ennfremur fjögur torg sem bjóða upp á fjölbreytta notkun.