Danski lyfjarisinn Novo Nordisk, sem leiddi um tíma byltingu í lyfjameðferð við offitu, hefur misst yfirburðastöðu sína á markaði.
Bandaríski samkeppnisaðilinn Eli Lilly hefur tekið forskot á danska félagið með öflugri lyfjum, betri aðfangastýringu og árangursríkari tengingu við neytendur, samkvæmt Financial Times.
Markaðsvirði Novo féll um meira en 60 milljarða evra í gær eftir að félagið sendi frá sér neikvæða afkomuviðvörun.
Skömmu síðar greindi félagið frá því að Maziar Mike Doustdar myndi taka við forstjórastöðunni en Lars Fruergaard Jørgensen lét af störfum um miðjan mánuð.
Novo Nordisk, sem varð leiðandi á markaði fyrir þyngdarstjórnunarlyf með innleiðingu Ozempic árið 2017, hefur síðan mátt þola vaxandi samkeppni og vaxandi efasemdir fjárfesta.
Eins og staðan er í dag benda nýjustu rannsóknir til þess að þyngdarstjórnunarlyf bandaríska lyfjafyrirtækisins Eli Lilly, Mounjaro og Zepbound, leiði að jafnaði til meira þyngdartaps og valdi færri aukaverkunum.
Í júlí fór fjöldi vikulegra lyfseðla fyrir Mounjaro yfir 622.000, sem er meira en fyrir Ozempic.
„Lilly var einfaldlega fljótari og áræðnari,“ segir fjárfestingastjóri hjá Stifel í samtali við Financial Times. „Þeir eru á tvöföldum hraða og Novo nær ekki að halda í við þá.“
Á neytendamarkaði
Þegar eftirspurn eftir þyngdarstjórnunarlyfjum jókst hratt á skömmum tíma kom snemma í ljós að Novo var illa undirbúið til að mæta eftirspurninni.
Fyrirtækið byggði áætlanir sínar á eftirspurn eftir eldra lyfi sínu Saxenda, sem hafði minni áhrif á líkamsþyngd. Félagið náði því ekki að anna eftirspurn eftir Ozempic og síðar Wegovy.
Þetta leiddi til þess að sjúklingar og læknar snéru sér að lyfjum Eli Lilly eða ódýrari eftirlíkingum. Sjúklingar snéru síðan ekki til baka þegar framleiðslugeta Novo Nordisk jókst.
Í stað þess að einblína á að endurheimta markaðshlutdeild í Bandaríkjunum fór Novo að hefja sölu á fleiri mörkuðum.
„Félagið hélt sig við hefðbundna læknamiðaða nálgun og missti sjónar á því að þetta var orðinn neytendamarkaður þar sem áhrifavaldar og samfélagsmiðlar skipta miklu,“ segir sérfræðingur sem þekkir til innan fyrirtækisins við FT.
Á sama tíma og Novo var að hugsa eins og hefðbundið lyfjafyrirtæki ákvað Eli Lilly að byrja að selja lyf sín beint til neytenda.
Í fyrra opnaði lyfjafyrirtækið LillyDirect sem bauð lyfin á lægra verði beint til neytenda.
Novo svaraði ekki fyrr en í mars 2025 með NovoCare. Þá hafði Lilly þegar tryggt sér forskot í beinni sölu til neytenda.
Fjárfestar beina nú sjónum að næstu kynslóð lyfja. Novo hefur veðjað á sprautulyfið CagriSema, sem átti að leiða til 25% þyngdartaps.
Þegar niðurstöður sýndu meðaltal upp á 23% brugðust markaðir harkalega við og féll hlutabréfaverð félagsins.
Til samanburðar skilar Wegovy-lyf Novo Nordisk 16% þyngdartapi en Mounjaro-lyf Eli Lilly skilar 21% þyngdartapi.
Novo hefur einnig sótt um markaðsleyfi á lyfi í töfluformi sem inniheldur semaglutide, sem er virka efnið í Ozempic.
Það má þó ekki taka lyfið í töfluformi með mat, drykk eða öðrum lyfjum, sem gæti dregið úr notkun.
Eli Lilly vinnur einnig að því að koma út þyngdarstjórnunarlyfi í töfluformi sem gæti komið á markað á næsta ári.
Samkvæmt greiningu Financial Times hefur Novo Nordisk fram til þessa byggt vöxt sinn á því að vera hefðbundið lyfjafyrirtæki sem stundar vísindalegar rannsóknir.
Markaðurinn með þyngdarstjórnunarlyf hefur þó þróast meira sem neytendamarkaður og skipta hraðvirkar dreifileiðir og sýnileiki m.a. á netinu meira máli en áður.
Eftirspurn eftir lyfjum beggja lyfjafyrirtækja er þó enn mjög mikil og markaðurinn enn í mótun.
Lyfjafyrirtækin Roche, Amgen og AstraZeneca eru þó á leið inn á markaðinn með eigin lyf en eftirspurnin er langt umfram framboð í mörgum löndum.
Nýr forstjóri Novo Nordisk, Doustdar, sagði í kjölfar ráðningar sinnar að hann væri ekki sáttur með stöðuna:
„Mér líkar þetta ekki, hvorki sem starfsmaður, sem verðandi forstjóri né sem hluthafi. En það eru viðbrögðin sem skipta máli, ekki áföllin.“