Elísabet II Englandsdrottning lést í dag 96 ára að aldri. Drottningin var ein ríkasta konan í Bretlandi.

Sunday Times metur eignir hennar, umfram skuldir, á 370 milljónir punda eða um 60 milljarða íslenskra króna. Þetta eru persónulegar eignir hennar.

Þeim má ekki má blanda saman við eignir konungsdæmisins. Konungsdæmið á gríðarlegar eignir. Bandaríska viðskiptatímaritið Forbes mat verðmæti þeirra á jafnvirði 3.920 milljarða króna í fyrra. Stór hluti þeirrar eigna liggur í höllum, köstulum og löndum. Tímaritið mat til dæmis Buckinghamhöll á 686 milljarða króna.

Karl III Bretakonungur, sem tók við embætti um leið og móðir hans lést, mun stýra þessum eignum en með miklum takmörkunum þó. Konungurinn getur ekki ráðstafað þeim að eigin vild, til dæmis með sölu.

Þegar drottningarmóðirin Elísabet lést árið 2002 var upplýst um helstu atriði erfðaskrár hennar. Hún arfleiddi dóttur sína að 50-70 milljónum punda, jafnvirði 8-12 milljörðum króna.

Að auki arfleiddi hún barnabarnabörn sín að 14 milljónum punda, jafnvirði 2,3 milljörðum króna,í gegnum sjóð.

Erfðaskrá Elísabetar II hefur eðlilega ekki verið gerð opinber. Hvort sem það verður gert, eða ekki, þá er ekki ósennilegt að við munum lesa um deilur vegna arfsins í breskum blöðum innan ekki svo langs tíma.