Auglýsingastofan Hvíta húsið og stafræna markaðsstofan Sahara hafa gert með sér samkomulag um samstarf.

Í tilkynningu segir að Hvíta húsið hafi um langt árabil verið í fremstu röð íslenskra auglýsingastofa þegar kemur að skilvirkri og hugmyndaríkri sköpun, stefnumótun, hönnun og auglýsingagerð. Hvíta húsið segist veita viðskiptavinum sínum víðtæka þjónustu og margvíslega ráðgjöf varðandi birtingar og samfélagsmiðla.

Sigurður Svansson, framkvæmdastjóri Sahara, segir að samstarfið við Hvíta húsið muni hafa í för með sér spennandi tækifæri fyrir báðar stofurnar og viðskiptavini þeirra. „Þetta skref er stigið í takt við stefnumarkandi vegferð sem við erum á og við erum þess fullviss að samlegðaráhrif sem af samstarfinu leiðir eru jákvæð,“ segir Sigurður.

Sahara er stafræn markaðsstofa með starfsstöðvar hér á landi og í Bandaríkjunum og þróar lausnir fyrir fyrirtæki í tengslum við markaðssetningu á stafrænum miðlum. Hún sérhæfir sig í auglýsingastjórnun á samfélagsmiðlum og leitarvélum (PPC), leitarvélabestun (SEO) og
efnisframleiðslu.

„Með samstarfi Hvíta hússins við Sahara munu viðskiptavinir okkar njóta góðs af þeirri sérþekkingu og reynslu sem Sahara byggir á og skila þeim þannig nýjum tækifærum og auknum árangri í sínu markaðsstarfi,” segir Elín Helga Sveinbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri Hvíta hússins.