Búist er við því að Donald Trump Bandaríkjaforseti muni tilkynna drög að viðskiptasamningi við Bretland í dag. Samningurinn yrði sá fyrsti meðal margra sem Hvíta húsið vonast til að gera eftir að forsetinn byrjaði að leggja tolla á bandamenn Bandaríkjanna.
Að sögn WSJ gaf forsetinn til kynna seint í gær að samningur yrði gerður við stórt og virt land og að hann myndi fela í sér breytingar á tollum.
Hvíta húsið hefur ekki svarað beiðnum fjölmiðla um athugasemdir en samkvæmt Tim Brightbill, lögfræðingi í alþjóðaviðskiptum, snýst tilkynningin líklegast um að samningaviðræður séu að fara að hefjast.
„Okkur grunar að tollar og stafræn viðskipti verði öll á dagskrá en það eru erfið mál sem verða öll rædd á næstu mánuðum.“
Bandaríkin eru stærsta viðskiptaþjóð Bretlands og hafa bresk yfirvöld ítrekað haldið því fram að viðskiptajöfnuður þjóðanna sé í góðu jafnvægi. Trump lagði engu að síður 10% toll á Bretland í síðasta mánuði ofan á þá 25% tolla sem lagðir voru á breskt stál og ál í mars.