Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,8% í septembermánuði, samanborið við 0,4% lækkun í ágúst. Hækkunin í síðasta mánuði skýrist einkum af hækkun sérbýlis en verð á fjölbýli lækkaði lítillega á milli mánaða. Þetta kemur fram í nýbirtum tölum hjá HMS.

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur nú hækkað um 22,5% á ársgrundvelli en til samanburðar mældist árshækkun vísitölunnar 25,5% í júlí og 23,0% í ágúst.

Hækkun vísitölunnar í september má einkum rekja til sérbýlis en sá liður vísitölunnar hækkaði um 4,8% á milli mánaða. Árshækkun á verði sérbýlis mælist nú 23,9%, samanborið við 19,8% í ágúst.

Verð á fjölbýli lækkaði lítillega á milli mánaða. Vísitala fyrir verð fjölbýlis á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 22,3% á ársgrundvelli, en til samanburðar mældist árstaktur fjölbýlis 22,3%.