Meðalvextir á föstu 30 ára íbúðarláni í Bandaríkjunum hafa hækkað úr 3,22% í upphafi ársins í 6,02% í þessari viku.

Vextir á bandarískum íbúðarlánum hafa ekki verið hærri síðan í nóvember 2008 þegar heimskreppan hófst.

Þetta kemur fram í tölum frá veðlánarisanum Freddie Mac en fyrirtækið gerir vikulega könnun á vöxtunum með lánastofnanna.

Hækkunin er afleiðing af hækkun stýrivaxta Seðlabanka Bandaríkjanna. Bankinn hefur, líkt og íslenski seðlabankinn og sá evrópski, hækkað vexti mikið til að bregðast við verðbólgu sem mældist 8,3% í síðasta mánuði.