Á höfuðborgarsvæðinu hefur fullbúnum íbúðum fjölgað í takt við íbúafjölgun í Hafnarfirði, Kópavogi og Garðabæ, samkvæmt nýrri mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
Eins hefur verið byggt í samræmi við íbúafjölgun í Árborg, á Akranesi, á Akureyri og í Hveragerði.
Hins vegar hefur bil myndast í Reykjavík, Reykjanesbæ og Borgarbyggð, þar sem íbúðum hefur ekki fjölgað í takt við íbúafjölgun síðustu ára.
Samkvæmt skýrslu HMS var fasteignamarkaðurinn líflegur á nýliðnum ársfjórðungi og hafa kaupsamningar, að teknu tilliti til uppkaupa Fasteignafélagsins Þórkötlu, ekki verið fleiri á öðrum ársfjórðungi að undanskildum árunum 2007 og 2021.
„Á höfuðborgarsvæðinu seldust um 19 prósent eigna yfir ásettu verði í júní en þegar fasteignamarkaður er í jafnvægi má gera ráð fyrir að hlutfallið sé um 10 prósent. Íbúðaverð heldur einnig áfram að hækka umfram verðlag, en í júlí síðastliðnum hækkaði vísitala íbúðaverðs um 0,8 prósent á milli mánaða,“ segir í skýrslu HMS.
Lögaðilar hafa bætt við sig tvöfalt fleiri íbúðum en einstaklingar, ef frá eru talin íbúðakaup fasteignafélagsins Þórkötlu. Sveitarfélög og óhagnaðardrifin leigufélög voru að baki litlum hluta af fjölgun íbúða í eigu lögaðila.
Samkvæmt HMS fjölgaði fyrstu kaupendum á fyrri hluta ársins, en hlutdeild þeirra í sögulegu samhengi er enn lág.
„Áhrifa hárra vaxta gætir hér en fjölgun íbúða í eigu einstaklinga sem eiga eina íbúð hefur dregist hratt saman á síðustu árum á sama tíma og viðbótaríbúðir hafa í auknum mæli runnið til stærri íbúðaeigenda. Leigumarkaðurinn ber enn merki töluverðrar eftirspurnarspennu og hefur markaðsleiga ekki hækkað jafnmikið umfram verðbólgu í sjö ár,“ segir í skýrslu HMS.
Alls voru þrír í virkri leit að leiguhúsnæði fyrir hvern nýjan leigusamning á leiguvefnum myigloo.is í júlí, en til samanburðar var einn í virkri leit fyrir hvern nýjan leigusamning í byrjun árs.