Úrvalsvísitalan lækkaði lítillega í 1,3 milljarða króna viðskiptum á aðalmarkaði Kauphallarinnar. Tíu félög voru rauð og níu græn í viðskiptum dagsins.
Iceland Seafood International (ISI) lækkaði mest af félögum Kauphallarinnar eða um 5,3% í 9 milljóna króna veltu en félagið sendi frá sér neikvæða afkomuviðvörun eftir lokun markaða á föstudaginn.
Hlutabréfaverð ISI stendur nú í 7,2 krónum og hefur aldrei verið lægra frá því að félagið var skráð á aðalmarkaðinn í lok október 2019. Gengið fór einnig lægst niður í 7,2 krónur í mars 2020, í byrjun Covid-faraldursins.
Hlutabréf Kviku banka lækkuðu næst mest eða um 2% í nærri 150 milljóna veltu. Gengi Kviku stendur nú í 17,2 krónum og hefur nú alls lækkað um 36% í ár. Gengi Icelandair lækkaði einnig um 1% í 50 milljóna veltu og stendur nú í 1,82 krónum á hlut.
Gengi Marels hækkaði um 0,9% í 180 milljóna veltu og stendur nú í 443 krónum. Eimskip hækkaði sömuleiðis um hálft prósent í 240 milljóna viðskiptum. Hlutabréfaverð flutningafélagsins nemur nú 512,5 krónum.