Aðlagaður hagnaður Iceland Seafood International (ISI) fyrir skatta (e. normalised PBT) nam 2,3 milljónum evra, eða um 330 milljónum króna, á þriðja ársfjórðungi, samkvæmt drögum að uppgjöri. Eftir taprekstur á fyrri árshelmingi er aðlagaður hagnaður fyrir skatta um hálf milljón evra eða um 70 milljónir króna á fyrstu níu mánuðum ársins.

Í tilkynningu sem Iceland Seafood sendi frá sér eftir lokun Kauphallarinnar kemur fram að spá félagsins um aðlagaðan hagnað fyrir skatta á árinu 2022 hafi verið færð niður úr 9,0-14,0 milljónum evra í 4,0-7,0 milljónir evra, eða niður í 570-995 milljónir króna.

Aukinn mótvindur

Félagið segir að verð á laxi hafi á síðasta fjórðungi aftur náð eðlilegu stigi með tilheyrandi jákvæðum áhrifum á rekstur dótturfélagsins Oceanpath í Írlandi og Ahumados Dominguez á Spáni. Sala og framlegð þorskvara á Spáni hafi verið góð á síðasta fjórðungi. Hins vegar var uppskera argentísku rækjuvertíðarinnar undir væntingum en aflinn var 43% lægri en á sama tíma í fyrra.

„Mótvindur hefur aukist í byrjun fjórða ársfjórðungs, sem er mikilvægt viðskiptatímabil fyrir Iceland Seafood. Það eru merki um að efnahagssamdráttur í Evrópu sé að hafa neikvæð áhrif á eftirspurn á lykilmörkuðum,“ segir félagið um horfur yfirstandandi ársfjórðungs.

„Verð á sjávarafurðum hefur hækkað verulega en á sama tíma hefur dregist úr kaupmætti neytenda vegna hækkandi orkuverðs og almennt hárrar verðbólgu.“