Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,2% í 5 milljarða króna veltu í dag. Helmingur veltunnar, eða um 2,5 milljarðar króna, var með hlutabréf Íslandsbanka sem hækkuðu um 1,7%. Gengi Íslandsbanka, sem tilkynnti í gær um framkvæmd endurkaupaáætlunar, stendur nú í 119 krónum á hlut.
Icelandair hækkaði mest af félögum Kauphallarinnar eða um 6,2% í yfir 300 milljóna veltu. Gengi Icelandair, stendur nú í 1,20 krónum á hlut og hefur ekki verið hærra síðan í mars síðastliðnum.
Flugfélagið birti flutningstölur eftir lokun Kauphallarinnar í gær þar sem m.a. fram kemur að farþegum til Íslands fjölgaði um 20% frá sama tímabili í fyrra.
Auk Icelandir, þá hækkaði hlutabréfaverð Sýnar og Iceland Seafood um meira en 2% í dag. Iceland Seafood International tilkynnti í gær um endurfjármögnun skulda.
Kvika 4% undir tilboðsgengi Arion
Gengi hlutabréfa þriggja félaga lækkaði um eitt prósent eða meira; Alvotech, Síldarvinnslunnar og Kviku banka.
Hlutabréfaverð Kviku banka lækkaði mest eða um 1,6% í yfir 200 milljóna veltu og stendur nú í 18,4 krónum á hlut. Gengi Kviku er nú 4% lægra en 19,17 krónu viðmiðunargengi bankans í samrunaviðræðum með Arion banka.