Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,9% í 6,6 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Hlutabréf tólf af 22 félaga Kauphallarinnar hækkuðu um meira en 2% í viðskiptum dagsins.

Icelandair leiddi hækkanir en gengi flugfélagsins hækkaði um 5,2% í 150 milljóna króna veltu. Hlutabréfaverð Icelandair stendur nú í 1,8 krónu á hlut, sem er þó 10% lægra en um miðjan septembermánuð. Gengi Play hækkaði einnig um 4,4% og stendur nú í 16,45 krónum.

Fasteignafélögin þrjú á aðalmarkaðnum hækkuðu öll um meira en 3% í dag eftir að hafa lækkað talsvert síðustu vikur. Af þeim hækkaði gengi Reita mest eða um 4% í 300 milljóna veltu og stendur nú í 91 krónu.

Einu félögin á aðalmarkaðnum sem lækkuðu í viðskiptum dagsins voru Síldarvinnslan og Brim. Gengi Síldarvinnslunnar lækkaði um 0,9% í 324 milljóna veltu og stendur nú í 115 krónum. Hlutabréfaverð Brims lækkaði um 1,2%, niður í 82,5 krónur, í hálfs milljarðs viðskiptum.

Sjá einnig: Ráðgjöf í loðnu úr 400.000 tonnum í 218.400 tonn

Hafrannsóknarstofnun birti í morgun ráðgjöf vegna komandi loðnuvertíðar. Stofnunin ráðleggur að loðnuafli i vetur verði ekki meiri en 218.400 tonn en upphafsráðgjöfin hljóðaði upp á 400.000 tonn.