Icelandair skilaði 7,7 milljarða króna hagnaði á þriðja ársfjórðungi. Hefur félagið nú skilað hagnaði tvo ársfjórðunga í röð, að því er kemur fram í uppgjöri félagsins.

Til samanburðar hagnaðist félagið um 20 milljónir dala á þriðja ársfjórðungi 2021. Icelandair hefur hagnast um 12 milljónir dala það sem af er ári, eða sem nemur 1,7 milljörðum króna. Þá nam EBIT hagnaður félagsins 92,7 milljónum dala á fjórðungnum, eða 12,3 milljörðum króna, sem er aukning um 11,2 milljarða króna milli ára.

Heildartekjur Icelandair námu 487 milljónum dala á ársfjórðungnum, sem er tæp tvöföldun milli ára. Þar af námu farþegatekjur 408 milljónum dala, eða 54 milljarði króna, og hafa þær aldrei verið hærri í stökum fjórðungi. Fjöldi farþega var 1,4 milljónir á tímabilinu, meira en tvöfalt fleiri en á sama tíma í fyrra.

Í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar segir að sætanýtingin hafi verið sú besta frá upphafi. Þá segir jafnframt í tilkynningu að sjóðsstaðan hafi verið sú besta frá upphafi við lok fjórðungsins.

Í skýrslu stjórnar í uppgjörinu kemur fram að markaðsverð á eldsneyti í heiminum hafi hækkað um 78% milli ára. Fyrir vikið var eldsneytiskostnaður félagsins 38% af heildarkostnaði félagsins á þriðja ársfjórðungi samanborið við 23% á sama tíma í fyrra.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair:

„Að skila svo góðu uppgjöri á þessum tímapunkti þar sem undirstaðan er sterk tekjumyndun sýnir augljóslega að viðskiptalíkan félagsins er að sanna gildi sitt. Við nýttum þann sveigjanleika sem við búum yfir til að grípa tækifærin á öllum okkar mörkuðum með góðum árangri.

Við jukum flugframboð okkar í sem nemur 82% af framboði ársins 2019 og tvöfölduðum fjölda farþega á milli ára. Það er virkilega ánægjulegt að sjá hvernig tengiflug yfir hafið hefur náð fyrri styrk hjá okkur eða um 43% af heildarfjölda farþega í fjórðungnum. Jafnframt styrktum við sölu í Saga farrými og náðum þar með betri sætanýtingu þar en fyrir faraldurinn. Þá héldu bæði fraktflutninga- og leiguflugsstarfsemi okkar áfram að styðja við heildartekjuöflun félagsins.

Að ná þessum árangri í uppbyggingu eftir faraldurinn í jafn krefjandi aðstæðum og raun ber vitni hefur einungis verið hægt með samhentu átaki starfsfólks þvert á fyrirtækið. Raskanir á flugi vegna krefjandi aðstæðna á erlendum flugvöllum og tafir í aðfangakeðjum höfðu mikil áhrif á starfsemi okkar og ekki síst á upplifun farþega. Mig langar að þakka starfsfólki okkar fyrir frábært starf að undanförnu, viðskiptavinum okkar fyrir traustið og þolinmæðina og íslenskri ferðaþjónustu fyrir samstarfið við að byggja ferðaþjónustuna hratt upp í aftur í sameiningu.

Bókunarstaðan í fjórða ársfjórðungi er sterk en við erum þó undirbúin undir mótvind í vetur. Rekstrarumhverfið verður áfram krefjandi með hækkandi vöxtum og kostnaði sem líklegt er að hafi áhrif á eftirspurn. Við erum þó sannfærð um að það eru áfram mikil tækifæri fyrir Ísland sem áfangastað. Icelandair byggir á sterkum grunni, með sterka lausafjárstöðu sem og öflugt leiðakerfi og sveigjanleika sem gerir okkur kleift að hreyfa okkur hratt og aðlaga þjónustu okkar og starfsemi að aðstæðum hverju sinni.“